Vísað frá gistiskýlinu ítrekað og svipti sig lífi

Neyðarskýlið við Lindargötu.
Neyðarskýlið við Lindargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimilislaus karlmaður á sextugsaldri svipti sig lífi eftir að honum var ítrekað vísað frá þegar hann leitaði skjóls hjá neyðarskýli Reykjavíkurborgar.

Reykjavík er eina sveitarfélagið sem rekur neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. 

Heimildin greinir frá þessu.

Fram kemur að manninum hafi verið vísað frá að beiðni Hafnarfjarðarbæjar og hefur miðillinn eftir systur mannsins að Hafnarfjarðarbær hafi neitað að greiða fyrir veru mannsins í gistiskýlinu. Þá hafi maðurinn upplifað mikla niðurlægingu vegna höfnunarinnar.

„Hann var reiður yfir því, ofboðslega reiður. Honum fannst hann niðurlægður og var mjög sár. Hann upplifði skilningsleysi og vanvirðingu,“ er haft eftir systurinni. Þá kemur fram að hann hafi síðast leitað í neyðarskýlið við Lindargötu þann 26. maí. 

Átján heimilislausir 2022 í Hafnarfirði

Greint hefur verið frá því að gistináttagjald skýla Reykjavíkurborgar hafi hækkað um 119 prósent gagnvart einstaklingum sem hafa lögheimili í öðrum sveitarfélögum eða úr 21 þúsund í 46 þúsund krónur.

Samkvæmt Heimildinni voru átján heimilislausir einstaklingar með fjölþættan vanda með lögheimili í Hafnarfirði en kostnaður bæjarins vegna veru þeirra í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar hafi verið 4,2 milljónir árið 2022.

Tekið er fram að Reykjavíkurborg sé jafnframt eina bæjarfélagið sem bjóði upp á þjónustu sem þessa og hafi hvatt önnur sveitarfélög til þess að taka upp slíka þjónustu.

Markmið bæjarins að bæta lífskjör 

Haft er eftir Sigþrúði Erlu Arnarsdóttur, framkvæmdastjóra á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, að Reykjavíkurborg sjái ekki um mál fyrir einstaklinga sem eru með lögheimili utan hennar.  

„Ef sveitarfélögin telja sig hafa önnur úrræði þannig að viðkomandi þurfi ekki að nýta sér gistingu í neyðarskýli, þá láta þau okkur vita af því og við komum þeim upplýsingum áleiðis til einstaklingsins ef hann mætir í neyðarskýlin,“ sagði Sigþrúður við Heimildina.

Í svörum Hafnarfjarðarbæjar til Heimildarinnar vegna frávísunar fólks frá skýlum Reykjavíkurborgar kemur fram að bærinn líti svo á að ef einstaklingur hefur gist í skýli í þrjár nætur sé það vísbending um að sá hinn sami glími við húsnæðisvanda.

Mikilvægt sé að veita þessum hópi stuðning og félagslega ráðgjöf en bærinn sé með það markmið að bæta lífskjör fólksins með fjárhagsaðstoð og fjölgun íbúða. Þá sé dvöl í skýli neyðarúrræði en ekki búsetuúrræði. 

Áframhaldandi vinna í málefnum heimilislausra einstaklinga

Hvað varðar það hvort hækkun kostnaðar við dvöl í skýlunum hafi eitthvað með það að gera að bærinn vilji að einstaklingum sé vísað frá, hafi samningur um greiðslu gistináttagjalds verið undirritaður við borgina í apríl og hafi hann tekið gildi 1. maí.

Áframhaldandi vinna sé einnig í gangi vegna samstarfsverkefnis í málefnum heimilislausra einstaklinga.

Umræddar fyrirspurnir Heimildarinnar voru sendar til bæjarins áður en maðurinn var úrskurðaður látinn þann 1. júní í kjölfar sjálfsvígstilraunar. Greint er frá því að svör við fyrirspurnum vegna þessa máls hafi ekki borist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert