Axarárásarmaður metinn ósakhæfur

Maðurinn var metinn ósakhæfur.
Maðurinn var metinn ósakhæfur.

Rúmlega fimmtugur karlmaður sem réðst á barnsmóður sína með exi fyrir utan Dalskóla í Úlfarsárdal var á þriðjudag sakfelldur fyrir háttsemina en hann var sýknaður af refsikröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ákvað dómari að maðurinn væri ósakhækur og verður hann látinn sæta öryggisgæslu í viðeigandi úrræði. Geðlæknir mat manninn ósakhæfan.

Í fyrstu neitaði maðurinn að hafa veist að konunni en breytti afstöðu sinni við fyrirtöku málsins. Játaði hann þar að hafa ráðist á konuna og slegið hana með eggvopninu.

Var að sækja börnin í skólann

Maðurinn var ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa ítrekað ráðist að fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður með exi við Dalskóla í Úlfarsárdal í lok nóvember á síðasta ári. 

Samkvæmt ákæru er maðurinn sagður hafa slegið konuna með öxi sem var með 12 cm blaði í höfuðið og hent henni í jörðina og í framhaldinu átt í átökum við hana uns konan náði að koma sér í burtu og leita skjóls í skólanum.

Eftir að árásin átti sér stað kom fram að konan hefði verið að sækja börn sín í skólann, en foreldrar, börn og starfsfólk urðu vitni að árásinni. Sendi skólastjóri Dalskóla foreldrum barna við skólann bréf í kjölfarið þar sem tekið var fram að það snerti tvö börn við skólann.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Konan höfuðkúpubrotnaði

Í ákæru var maðurinn sagður hafa ógnað lífi konunnar, heilsu og velferð með athæfi sínu, en konan hlaut opið sár á höfði, brot á höfuðkúpu og andlitsbeinum og sár og mar víða á handleggjum, fótleggjum, öxl og andliti.

Þá sagði í öðrum lið ákærunnar ákærður fyrir að hafa beitt öxinni á bifreið konunnar og valdið skemmdum þannig að bifreiðin eyðilagðist.

Maðurinn hefur dvalið á réttar- og öryggisgeðdeild eftir að árásin átti sér stað.

Lögregla sagði við mbl.is í byrjun desember að konan væri á batavegi eftir árásina.

mbl.is