Dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun í bíl

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Demetrius Allen, bandarískur karlmaður, hefur verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun hér á landi á nýársdag. Allen sætti gæsluvarðhaldi eftir að hafa í tvígang reynt að flýja land.

Allen var sakfelldur fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við íslenska konu án samþykkis og með ofbeldi og ólögmætri nauðung í kyrrstæðri bifreið að kvöldi sunnudagsins 1. janúar á þessu ári.

Hann neitaði sök í málinu, kvað kynmökin hafa verið með samþykki konunnar og raunar að hennar frumkvæði.

„I think I killed her“

Í ákæru kemur fram að Allen hafi þvingað konuna til að hafa við sig munnmök og skeytt því engu þótt hún berðist á móti, segði honum að hætta og hefði kastað upp. Hann hafi í kjölfarið haft við hana samfarir með því að notfæra sér að hún var illa áttuð og gat ekki spornað við verknaðinum sökum áhrifa kannabisefna.

Að samförunum loknum kvaðst konan hafa heyrt Allen hringja í vin sinn og biðja hann að sækja sig. Hún hefði heyrt hann segja í símann „I think I killed her“ eða „Ég held að ég hafi drepið hana“.

Héraðsdómur taldi framburð konunnar trúverðugan og kvað hann vera í fullu samræmi við framburð vitna og gögn í málinu.

Talið var sannað, gegn neitun Allen, að hann hefði haft samræði og önnur kynferðismök við konuna án hennar samþykkis, með ofbeldi og ólögmætri nauðung, og notfært sér að hún var illa áttuð og gat ekki spornað við verknaðinum sökum áhrifa kannabisefna.

Refsing Allen þótti hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og var honum gert að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur.

mbl.is