Hófu störf í dag þó að laun liggi ekki fyrir

Vinnuskóli Reykjavíkur hóf störf í dag.
Vinnuskóli Reykjavíkur hóf störf í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Athygli hefur vakið að unglingar hófu störf hjá Vinnuskóla Reykjavíkur í dag án þess að búið sé að taka ákvörðun um kaup og kjör fyrir störfin yfir sumarið. 

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar stendur að laun fyrir sumarið 2023 hafi enn sem komið er ekki verið ákvörðuð.

Foreldrar kvarta á samfélagsmiðlum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á þessu með fyrirspurn sinni fyrir borgarráði á miðvikudaginn þar sem hann spurði hvers vegna umrædd laun væru ekki enn ákveðin.

Margir unglingar öðlast fyrstu reynslu sína af vinnumarkaði hjá vinnuskólanum og æskilegt er að upplýsingar um kaup og kjör liggi fyrir þegar þeir skrá sig til starfa,“ segir í fyrirspurninni.

Kjartan segir í samtali við mbl.is að honum hafi borist margar athugasemdir og spurningar frá foreldrum sem furði sig á þessu ástandi. Einnig hefur hann orðið var við að foreldrar kvarti undan þessu á samfélagsmiðlum.

Kjartan tekur fram að borgarráð þurfi að samþykkja kaupið en til þess þurfi tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Laun ákvörðuð í næstu viku

Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is að laun verði ákveðin í næstu viku og að reikna megi með því að launin verði þau sömu og á síðasta ári.

„Þetta er bara sambærilegur taxti og í öðrum sveitarfélögum. Þetta eru í raun og veru bara launin sem þau fengu í fyrra,“ segir hún.

„Þá fengu við ákveðna upphæð inn í fjárhagsramma umhverfis- og skipulagssviðs til þess að uppfæra launin þeirra og við erum að fara gera það aftur núna í næstu viku því við vorum ekki búin að fá það inn í fjárhagsramman okkar. Ég vona og vænti þess að við fáum þetta í næstu viku.“

Hún tekur því fram að þau muni taka ákvörðun eftir helgina og að því loknu verði tillaga send fyrir borgarráð Reykjavíkur sem ætti að vera samþykkt samdægurs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert