Óásættanlegt að börnum sé meinaður aðgangur

Ásmundur Einar fundaði með skólameisturum framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins í morgun.
Ásmundur Einar fundaði með skólameisturum framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir ekki ásættanlegt að börnum með fatlanir hafi verið meinað um inngöngu í framhaldsskóla í haust. Þetta sé stór hópur barna en þeim verði öllum tryggð skólavist. 

„Það liggur ljóst fyrir að þetta er ekki ásættanlegt. Það á að tryggja öllum skólavist,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is í dag eftir ríkisstjórnarfund.

Sagðist hann hafa fundað með öllum skólameisturum framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu í morgun. 

„Þetta er ansi stór hópur núna sem vantar skólavist. Við ætlum að finna leiðir til þess að leysa þetta til skamms tíma,“ segir Ásmundur, en eins og mbl.is hefur greint frá sendi Menntamálastofnun bréf til hóps foreldra barna með fötlun, en þar var þeim tjáð að enginn framhaldsskóli gæti tekið við börnunum.

Undirbúa breytingar

„Við erum líka með í undirbúningi breytingu á því hvernig við innritum á starfsbrautir og hvernig við byggjum upp þjónustu við þessa nemendur í framhaldsskólakerfinu sem við vonumst til þess að geta kynnt á næstunni en mun ekki hafa áhrif núna í haust, heldur haustið á eftir.

Við erum að vinna í því með skólunum á höfuðborgarsvæðinu að finna lausn á þessu enda er þetta ekki ásættanlegt og þetta verður leyst,“ segir Ásmundur Einar.

Eiga þessi börn von á því að fá inngöngu í framhaldsskóla í haust?

„Já, við munum leysa þessi mál,“

mbl.is