Rannsókn máls á hendur Vítalíu felld niður

Vítalía Lazareva.
Vítalía Lazareva. Ljósmynd/Skjáskot Eigin konur

Héraðssaksóknari hefur fellt niður rannsókn máls á hendur Vítalíu Lazarevu er varðar meinta fjárkúgun hennar á hendur Ara Edwald, Hreggviði Jónssyni og Þórði Má Jóhannessyni.

Embætti héraðssaksóknara telur málið ekki líklegt til sakfellingar miðað við þau rannsóknargögn sem liggja fyrir.

Kolbrún Garðarsdóttir, lögmaður Vítalíu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Heimildin greindi fyrst frá.

„Héraðssaksóknari sendi út bréf 6. júní og tilkynnti að málið hefði verið fellt niður af því að það sem fram er komið væri ekki líklegt til sakfellis, þannig að sönnunarstaðan er bara ekki góð miðað við þau gögn sem voru lögð fram,“ segir Kolbrún.

Hárrétt niðurstaða að mati Vítalíu

Þremenningarnir kærðu Vítalíu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot á friðhelgi einkalífs í júní á síðasta ári.

Spurð hvort ákvörðun héraðssaksóknara hafi komið á óvart svarar Kolbrún neitandi.

„Gögnin voru væntanlega ekki nægileg til þess að heimfæra þau undir ákvæði um fjárkúgun þannig að það er ekki sannað að eitthvað slíkt hafi verið í gangi.“

Hún segir niðurstöðu héraðssaksóknara verulegan létti fyrir umbjóðanda sinn.

„Vítalía er bara mjög ánægð með þessa niðurstöðu og er augljóslega sammála henni og finnst þetta vera staðfesting á því að hún hafi verið beitt einhvers konar þöggunartilburðum af hálfu þessara manna með þessari kæru. Niðurstaðan er bara hárrétt að hennar mati.“

Reiknar með niðurstöðu í haust

Héraðssaksóknari tók þá ákvörðun fyrr á árinu að hætta rannsókn vegna kæru Vítalíu á hendur þremenningunum fyrir kynferðisbrot.

Sú ákvörðun héraðssaksóknara var kærð til ríkissaksóknara og er þar til meðferðar, að sögn Kolbrúnar.

Hún segist eiga von á því að niðurstaða muni liggja fyrir í haust hvort ákvörðunin verði staðfest eða málinu vísað aftur til héraðssaksóknara til áframhaldandi rannsóknar.

mbl.is