Sér ekki fyrir sér að slíta stjórnmálasambandi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að taka ákvörðun um að leggja starfsemi okkar niður í Moskvu vegna þess að forsendur fyrir því að reka sendiráð þar eru gjörbreyttar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. 

Utanríkisráðuneytið greindi frá því í dag að starfsemi sendiráðsins í Rússlandi verði hætt frá og með 1. ágúst næstkomandi. Þá yrðu þær kröfur gerðar að starfsemi sendiráðs Rússlands á Íslandi verði sömuleiðis dregin saman. 

Spurð hvort utanríkisráðuneytið væri að reka sendiherra Rússlands, Mik­haíl Noskov, úr landi sagði Þórdís að svo væri ekki. „Í krafti gagnkvæmni, sem almennt er gert ráð fyrir í diplómatískum samskiptum, gerum við þá kröfu að þau minnki umsvif sín hér, bæði í starfsmannafjölda og sömuleiðis að sendiráðinu hér sé ekki stýrt af sendiherra,“ segir Þórdís. 

Hvað var dropinn sem fyllti mælinn? Af hverju eru þið í þessum aðgerðum núna?

„Ég hef verið spurð mjög oft, allt frá því í lok febrúar á síðasta ári, um starfsemi sendiráðsins hér og um veru sendiherrans hér. Þá hef ég bent á það að þær aðgerðir sem í raun öll lönd í kringum okkur hafa farið í, þar að segja að senda fólk heim, kalla fólk heim. Því er almennt svarað af gagnkvæmni. Í okkar tilfelli væri okkar starfsemi hætt, því við erum með örfáa starfsmenn í Moskvu. Ég hef alltaf sagt að þá ákvörðun þurfi íhuga almennilega og vanda til verka,“ segir Þórdís. 

Árni Þór Sigurðsson er sendiherra Íslands í Moskvu og Mík­haíl …
Árni Þór Sigurðsson er sendiherra Íslands í Moskvu og Mík­haíl Noskov sendiherra Rússlands á Íslandi. Samsett mynd

Forsendur brostnar

Þórdís segir að forsendur þess að reka sendiráð í Moskvu séu brostnar og ekki sé útlit fyrir að forsendur breytist í náinni framtíð.

„Við leggjum þá starfsemi niður án þess að slíta stjórnmálasambandi við Rússland og án þess að loka sendiráðinu að forminu til. Þannig að ef að aðstæður breytast er hægt að hefja starfsemi að nýju,“ segir Þórdís. 

Hún segir samskipti Íslands í algjöru lágmarki nú þegar. Hún bendir á að Ísland sé með sendiráð í 18 höfuðborgum. „Þau eru ekki fleiri en það. Þegar við tökum ákvörðun um að opna eða viðhalda starfsemi í höfuðborg þá lítum við meðal annars til viðskiptalegra, menningarlegra og stjórnmálalegra tengsla,“ segir Þórdís. Þessi samskipti séu í algjöru lágmarki núna.

„Við erum með tengsl við alls konar ríki“

Spurð hvort komi til greina að ganga lengra og slíta stjórnmálasambandi við Rússland alfarið segir Þórdís að það sé ekki á dagskrá. 

„Ekkert þeirra ríkja sem við berum okkur saman við hefur gert það. Ég hef alltaf haldið því til haga að við erum ekki eingöngu með stjórnmálaleg tengsl við líkt þenkjandi ríki eða ríki þar sem við eigum í góðum samskiptum við. Við erum með tengsl við allskonar ríki. Ég sé ekki fyrir mér að slíta stjórnmálatengsl við Rússland frekar en við önnur lönd í kringum okkur,“ segir Þórdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert