Spáin bendir til góðra daga í sumar

Þurrara loft kemur úr vestri og því fylgir sólskin.
Þurrara loft kemur úr vestri og því fylgir sólskin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólþyrstir íbúar á Suðvesturlandi ættu að sjá til sólar síðar í dag og um helgina. Veðrið fer smám saman hlýnandi og verður orðið nokkuð hlýtt á sunnudag og mánudag, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

„Nú er er þurrara loft að koma úr vestri og því fylgir sólskin en svona frekar svalt veður það sem eftir lifir dags og á morgun. Þá er ekki spáð neinni rigningu nokkurs staðar, heldur ekki á sunnudag og mánudag,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Nú sé loksins að stytta upp á Vesturlandi eftir mikla úrkomu.

„Það verður sunnan- og suðvestanátt og hæðin sem var hérna fyrir sunnan landið þangað til núna með þessari rigningu birtist á nýjan leik.“

Spáð vænum hita á Norður- og Austurlandi

Þá mun sólin einnig láta sjá sig eftir helgi.

„Það er meiri spurning með suðvestanvert landið hversu skýjað verður, en þá er líka vindur orðinn meira suðvestanstæður og þá er spáð mjög vænum hita á Norður- og Austurlandi.“

Spurður hvort um sé að ræða ávísun á gott sumar segir Einar:

„Veðrið núna þessa dagana segir ekkert til um það, en það er ekkert sem bendir til þess að það verði hér einhver leiðindi eftir þessa lægð núna með áframhaldandi lægðum og rysjóttu sumarveðri. Langtímaspáin bendir frekar til þess að það verði fleiri góðir dagar en ekki, heilt yfir á landinu.“

Kuldablettur hefur ekki áhrif

Þá segir hann ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af kuldablettinum sem hefur verið í umræðunni undanfarið, enda sé um að ræða kort frá árinu 2015 þegar bletturinn var áberandi.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það sést ekkert til hans í yfirborðssjónum núna þetta vorið og hann hefur þá ekki áhrif,“ segir Einar.

„Það er tiltölulega hlýtt í sjónum fyrir sunnan landið en það er hins vegar áberandi köld tunga fyrir norðan og tengist meðal annars því að ísinn er nálægur. Þannig að ef hann snerist í norðanátt þá yrði dálítið kalt fyrir norðan, en það er ekkert útlit fyrir að það séu neinar norðanáttir, fyrir utan þetta kalda loft sem er núna næsta sólarhringinn.“

mbl.is