Þriggja milljarða gagnaver á Akureyri

Fullbyggt mun gagnaver atNorth við Hlíðarvelli á Akureyri líta svona …
Fullbyggt mun gagnaver atNorth við Hlíðarvelli á Akureyri líta svona út. Tölvumynd/atNorth

Nýtt gagnaver atNorth að Hlíðarvöllum 1 á Akureyri var formlega vígt í dag að viðstöddu lykilfólki sem kom að undirbúningi, framkvæmdum og fjármögnun verkefnisins. 

Skrifað var undir viljayfirlýsingu milli Akureyrarbæjar og atNorth í apríl í fyrra, skóflustunga tekin að byggingunni um mitt síðasta ár og reisugillið var í nóvember. Nú er fyrsta áfanga verksins lokið og húsið formlega tekið í notkun. Kostnaður nemur vel á þriðja milljarð króna.

Fyrsti áfangi gagnaversins var tekinn í notkun í dag og …
Fyrsti áfangi gagnaversins var tekinn í notkun í dag og þá var flaggað. Mbl.is/Margrét Þóra

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, sagði í athöfninni að um 80 manns hefðu lagt hönd á plóg við uppbygginguna og lauk lofsorði á hversu vel hefði verið að verki staðið.

„Þetta er stór dagur fyrir okkur og nærsamfélagið á Akureyri. Gagnaverið er það fullkomnasta sinnar tegundar og fjarlægð frá öðrum starfsstöðvum atNorth gefur viðskiptavinum færi á að tryggja landfræðilegan aðskilnað milli sinna tölvukerfa. Þannig tekst að lágmarka hættuna af mögulegum truflunum, t.d. vegna náttúruvár. Það styrkir okkar samkeppnisstöðu,“ sagði Eyjólfur Magnús.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, greindi frá áformum fyrirtækisins á …
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, greindi frá áformum fyrirtækisins á Akureyri og víðar, við opnunina í dag. Mbl.is/Margrét Þóra

Fyrsti áfangi gagnaversins er í tveimur 2.500 fermetrar samtengdum byggingum en fullbyggt verður það rekið í fimm byggingum. Þá er gert ráð fyrir þremur skrifstofu- og þjónustuhúsum á lóðinni.

Fyrirtækið er með starfsemi á Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi, en ástæða þess að Akureyri varð var yfir valinu fyrir nýjast gagnaverið var m.a. þekking og mannauður sem til staðar er í bænum. Þá dreifist áhættan landfræðilega en gagnaver félagsins hér á landi eru einkum á Reykjanesi. Eins nefndi hann góðar samgöngur, m.a. í flugi og aukið öryggi í raforkumálum með tilkomu Blöndulínu.

Uppbygging gagnavera í Evrópu hefur á undanförnum árum færst sífellt norðar í álfuna, þar sem hitastig er lægra, orkan endurnýjanleg, tæknilegir inniviðir eru sterkir og hæft fólk fæst til starfa.

Nokkrir gestanna sem voru viðstaddir við opnun gagnaversins.
Nokkrir gestanna sem voru viðstaddir við opnun gagnaversins. Mbl.is/Margrét Þóra
mbl.is