„Algjörlega útópískt“

Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður SAFL, kveður aðrar þjóðir ekki einvörðungu …
Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður SAFL, kveður aðrar þjóðir ekki einvörðungu láta stuðning við Úkraínu bitna á bændum. Samsett mynd

„Það er náttúrulega alvarlegt þegar þingmenn þjóðarinnar tala svona úr ræðustól á Alþingi. Það sem mér finnst sorglegast í þessu er vanþekking viðkomandi á landbúnaði yfir höfuð,“ segir Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL), í samtali við mbl.is um gagnrýni samtakanna í garð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þing- og formanns Viðreisnar, vegna ummæla hennar á Alþingi um meinta afstöðu samtakanna gagnvart stöðu Úkraínu í því stríði er þar nú geisar.

Bendir Sigurjón á þá slöku umgjörð sem íslenskum landbúnaði er búin miðað við hvað tíðkast í ranni nágrannaþjóða. „Í þessu máli eru aðrar þjóðir ekki að láta [stuðning við Úkraínu] bitna einvörðungu á bændum eins og Íslendingar eru að gera. Það eru stórkostlegar mótvægisaðgerðir hjá Evrópusambandinu, Noregur velur að fara ekki þessi leið en styður Úkraínu með öðrum hætti, lætur ekki bændur einvörðungu bera kostnað af einstaka aðgerðum heldur notar styrki úr sameiginlegum sjóðum, og það er náttúrulega alrangt hjá henni [Þorgerði Katrínu] að við séum að taka einhverja afstöðu í þessu máli,“ segir Sigurjón og vísar þar til samtaka þeirra er hann veitir formennsku.

Noregur og Sviss fóru aldrei þá leið

„Þvert á móti held ég að við eins og aðrir Íslendingar höfum fulla samúð með Úkraínumönnum og viljum styðja þá eins og hægt er, en þetta er ekki rétta leiðin til að gera það. Að öðru leyti hefur þetta komið fram í yfirlýsingunni sem við settum á heimasíðu SAFL, í henni kemur fram hvernig Norðmenn hafa gert þetta og Sviss,“ segir Sigurjón.

Í hverju felst þá helsti munurinn þar og á Íslandi?

„Noregur og Sviss fóru aldrei þá leið að fella niður tolla á landbúnaðarvörur,“ svarar Sigurjón, þessi lönd hafi einfaldlega farið styrkjaleiðina gegnum alþjóðastofnanir og þannig stutt við Úkraínu. Hins vegar hafi Evrópusambandið gripið til stórkostlegra mótvægisaðgerða í formi stuðningsgreiðslna til bænda.

„Pólverjar hafa hins vegar farið verst út úr þessu. Ég held að sá pakki nemi nú bara 52 milljörðum og það er annað eins í Evrópusambandinu, ég held að þetta séu á bilinu 140 til 150 milljarðar sem hafa farið í mótvægisaðgerðir í stuðning til bænda frá upphafi stríðsins. Það er algjörlega útópískt að Ísland sé eina Evrópuríkið þar sem kostnaður við ákveðnar stuðningsaðgerðir við Úkraínu var einvörðungu borinn af bændum,“ segir formaðurinn.

Hagsmunagæslan veikst

Aðspurður segir Sigurjón samtök hans ná til flestra fyrirtækja sem sinni framleiðslu og úrvinnslu innlendra landbúnaðarafurða. „Það hefur svo sem komið fram í fréttum að hjá okkur og Bændasamtökunum er í gangi vinna til að auka samstarf þessara aðila, jafnvel að koma saman í ein samtök þar sem landbúnaðurinn talar einum rómi.

Sigurjón hefur gegnt formennsku frá stofnun SAFL í mars í fyrra, „þessi samtök voru stofnuð vegna þess að menn áttuðu sig á því að hagsmunagæsla fyrir íslenskan landbúnað hafði veikst í gegnum tíðina og jafna þarf aðstöðuhalla íslensks landbúnaðar til jafns við nágrannaþjóðir okkar. Hér hvarf landbúnaðarráðuneytið og grafist hefur undan þekkingu á því hvernig aðrar þjóðir búa landbúnaði sínum sterka umgjörð.

Á Íslandi halda margir að við séum með mest niðurgreiddan landbúnað af öllum Evrópuríkjum og hér berjist menn um á hæl og hnakka til að ekki séu fluttar inn landbúnaðarvörur án tolla á meðan sannleikurinn er hið gagnstæða. Við niðurgreiðum landbúnað minnst af öllum Evrópuríkjum þegar allt er talið, beinn og óbeinn stuðningur og verjum innflutning verr en Norðmenn, Evrópusambandið og önnur ríki Evrópu, því miður. Og það er orðið mjög alvarlegt hve lítill stuðningur er við landbúnað á Íslandi,“ segir Sigurjón.

Tekjustofninn snarminnkað

Á landbúnaður á Íslandi þá bara algjörlega undir högg að sækja – hvað hefur breyst sé litið nokkra áratugi aftur í tímann?

„Já,“ svarar Sigurjón afdráttarlaust, „ef þú lítur þrjátíu ár aftur í tímann hefur opinber stuðningur við íslenskan landbúnað hrunið, það er ekki til annað orð yfir það. Um það er engum einum að kenna, í raun okkur öllum – stjórnvöldum, bændum, fyrirtækjum í landbúnaði, menn sváfu bara á verðinum, þetta er bara einfaldlega þannig,“ segir hann og bætir því við að brotthvarf landbúnaðarráðuneytisins hafi ekki hjálpað til, þar hafi mikilsverð þekking horfið.

„Bændasamtökin veikjast af því að tekjustofninn hefur snarminnkað við brotthvarf búnaðargjaldsins. Í þessu andrúmslofti hefur Samkeppniseftirlitið og raddir sem hafa talað fyrir aðra hagsmuni en bænda bara fengið að tala óáreittar og óleiðréttar svo maður tali bara íslensku. Undanþágur frá samkeppnislögum eru gríðarlega miklar í Evrópu en þær eru minnstar á Íslandi af öllum Evrópuríkjum svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sigurjón Rúnar Rafnsson, formaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, að lokum, staddur í hesthúsi sínu í þessu viðtali.

mbl.is