Ferðaáætlun Prusa rann út í sandinn í Nýjadal

Jiri Prusa við fisflugvélina sína eftir að henni var komið …
Jiri Prusa við fisflugvélina sína eftir að henni var komið í flugskýli í Reykjavík. mbl.is/Arnþór

Jiri Prusa, flugmaður frá Tékklandi, lenti í ógöngum í Nýjadal á Sprengisandi þegar stöng úr framhjólabúnaði fisvélar hans brotnaði síðastliðinn sunnudag. Hafði hann stefnt á að fljúga frá Tékklandi til Kanada með því að fara yfir Færeyjar og með einu stoppi á Íslandi. Þau áform tóku hins vegar nokkrum breytingum.

Flugvegalengdin frá Tékklandi til Íslands er 2.670 km og hefði Jiri með því flugi óformlega slegið heimsmet í floginni vegalengd án þess að stoppa, á fisvél með 600 kílóa hámarksþyngd. Hann lagði af stað 1. júní frá Tékklandi. Vegna mikils mótvinds tókst honum ekki að fljúga alla leið til Íslands og millilenti í Færeyjum.

Þar sem ljóst var að ekki tækist að halda upprunalegri ferðaáætlun ákvað Jiri að breyta einnig fluginu og millilenda líka í Grænlandi. Þegar hann komst að því að flugvellir á Grænlandi yrðu ekki opnaðir fyrr en á mánudeginum ákvað hann að dvelja á Íslandi yfir helgina.

Var honum boðið að taka þátt í flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli sl. laugardag með félögum í Fisfélagi Reykjavíkur. Á sunnudeginum ákvað hann síðan að fara í útsýnisflug um Ísland og skoða flugvelli landsins í leiðinni og ákvað hann að lenda í Nýjadal á Sprengisandi, en lenti þar í vandræðum við að taka á loft aftur.

Félagar í Fisfélagi Reykjavíkur komu honum til aðstoðar, náðu að laga vélina til bráðabirgða og koma henni í flugskýli við flugvöll félagsins þar sem unnið hefur verið að endanlegri viðgerð. Prusa stefnir á að fljúga aftur út til Tékklands um eða eftir helgina. 

Ítarlega er rætt við Prusa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: