Samband tónhæðar og líkamlegrar heilsu

Kári Stefánsson og Rósa Signý Gísladóttir.
Kári Stefánsson og Rósa Signý Gísladóttir. Ljósmynd/Íslensk erfðagreining

Erfðabreytan sem fannst í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar á erfðum radda hefur áhrif á hjarta og æðakerfi. 

Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa fundið fyrstu erfðabreytuna sem hefur áhrif á hversu djúp eða há röddin er eins og greint var frá í gær. 

Rannsóknin leiddi í ljós að erfðabreyta í geninu ABCC9 hefur áhrif á tónhæð raddarinnar. Athyglisvert er að erfðabreytan sem fannst í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar hefur áhrif á röddina í körlum og konum óháð líkamsstærð. Sama erfðabreyta hefur áhrif á hjarta og æðakerfi og undirstrikar samband tónhæðar og líkamlegrar heilsu.

„Tengsl við heilsu var hvatning til að skoða þetta og til eru rannsóknir sem benda til þess að breytingar á röddinni geti verið birtingamynd sjúkdóma. Í þessari rannsókn sjáum við nokkuð skýr tengsl við heilsutengdar breytur. Hærri tónhæð tengist hærri mörkum blóðþrýstings, minni vöðvamassa og hærri fituprósentu.  Það er áhugavert mynstur og við sjáum í gögnunum að erfðabreytan sem tengist hærri tónhæð er sú sama og tengist hærri blóðþrýstingi,“ segir Rósa Signý Gísladóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og doktor í sálfræðilegum málvísindum. 

„Í þessari skrítnu rannsókn sem fljótt á litið sýnist ekki tengjast heilsu þá eru í þessu alls kyns sniðugar upplýsingar. Þetta gerist þegar þú leggur af stað í leiðangur eins og Rósa gerði án þess að hafa einhvers konar kenningu til að byrja með. Hún leggur af stað án þess að vera með sérstakar væntingar um hvað hún kunni að finna,“ segir Kári Stefánsson forstjóri ÍE og bætir við að með skilningi á mannlegri fjölbreytni megi varpa betra ljósi á ýmsa sjúkdóma. 

„Það sem hefur verið okkur hvatning að mestu leyti í gegnum tíðina er að nota þann skilning á mannlegri fjölbreytni sem við náum í til að varpa ljósi á alls konar sjúkdóma. Möguleikinn til að nota hina ýmsu þætti í mannlegri fjölbreytni til að spá að einhverju leyti fyrir um framtíðarheilsu einstaklings þótt margt sé ófyrirsjáanlegt. Heilsurannsóknin hjá Íslenskri erfðagreiningu er hluti af því en svo kemur Rósa hingað og hún hefur sérhæft sig í tungumálinu. Hún byrjar að grafa ofan í gögnin út frá sínu áhugasviði sem er mjög flott. Þannig á þetta að gerast. “

Nánar er rætt við Rósu og Kára í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

mbl.is