Ógilding virkjunarleyfis kom á óvart

Haraldur Þór Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Jón G. Valgeirsson …
Haraldur Þór Jónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Jón G. Valgeirsson segjast allir vera hissa á ákvörðun úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála. Samsett mynd

„Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti og er að sjálfsögðu vonbrigði,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is.

Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála felldi virkj­un­ar­leyfi Lands­virkj­un­ar fyr­ir Hvamms­virkj­un úr gildi, en leyfið var gefið út í lok síðasta árs. Oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi tekur í sama streng og ráðherra.

Guðlaugur segir að hann muni setjast niður með Orkustofnun og Umhverfisstofnun til að greina málið nánar en segir ljóst að þetta séu slæmar fréttir.

„Okkar vantar mikið af grænni orku þannig þetta eru slæmar fréttir. Við getum ekki beðið með það að afla grænnar orku, það liggur alveg fyrir."

Samþykktu leyfið í gær

Haraldur Þór Jónsson, oddviti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, segir þessi tíðindi koma sér verulega á óvart. „Þetta kemur mér að sjálfsögðu á óvart eins og flestum öðrum. Ég þarf að gefa mér tíma núna á næstunni til að lesa úrskurðinn nánar en ég er hissa."

Sveitarstjórn þar samþykkti á þriðjudag að veita fram­kvæmda­leyfi til Lands­virkj­un­ar vegna Hvammsvirkjunar. Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti á sama tíma að fresta málinu fram til 23. júní.

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, segir einnig ákvörðunina koma á óvart og að hún muni mögulega hafa áhrif á ákvörðun sveitarfélagsins í næstu viku.

„Við vorum með málið í þeirri stöðu að við höfðum frestað því að veita framkvæmdaleyfið og við verðum að skoða það í þessu ljósi í næstu viku. Ákvörðunin kemur þó frekar á óvart," segir hann og bætir við að almenn sátt sé í sveitarfélaginu fyrir Hvammsvirkjun.

Ljóst að verkefninu muni seinka

Guðlaugur Þór segir að lokum að einfalda þurfi leyfisveitingakerfið.

„Við þurfum að einfalda leyfisveitingakerfið og gera það skilvirkara án þess að gefa afslátt af þeim kröfum sem við viljum gera. Það er það sem við höfum verið að gera með sameiningu stofnana og við munum halda því áfram. Á þessu stigi vitum við ekki hverjar afleiðingarnar eru en það er nokkuð ljóst að verkefninu mun seinka sem eru ekki góðar fréttir.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert