Framkvæmdastjóri hættir í kjölfar fernumálsins

Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs.
Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs. Samsett mynd

„Um þessar mundir stendur Úrvinnslusjóður á tímamótum.“ Svona byrjar tilkynning Úrvinnslusjóðs, en rétt í þessu voru þeir að bjóða framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, Ólafi Kjartanssyni, til tuttugu ára upp á starfslokasamning. Þetta kemur í kjölfar frétta um að fyrirtæki sem fá greitt úr Úrvinnslusjóði fyrir að endurvinna fernur eru ekki að endurvinna þær. 

Tilkynningin í heild sinni. 

„Um þessar mundir stendur Úrvinnslusjóður á tímamótum. Hlutverk Úrvinnslusjóðs hefur og er að taka miklum breytingum samfara innleiðingu hringrásarhagkerfisins og hefur mikilvæg reynsla myndast síðustu ár og mánuði. Til að sjóðurinn geti sinnt sínu hlutverki með sem bestum hætti er ljóst að starfsemin þarf að vera opnari, framsýnni og kvikari. Umbreyting er óhjákvæmileg og þó nú þegar sé unnið að breytingum undir stjórn Ólafs Kjartanssonar framkvæmdastjóra er bæði honum og stjórn Úrvinnslusjóðs ljóst að mikið verk er enn óunnið.

Uppbygging og rekstur Úrvinnslusjóðs hefur hvílt á herðum Ólafs í rúm tuttugu ár, þ.e. frá stofnun sjóðsins þann 1. janúar 2003. Ólafur hefur reynst Úrvinnslusjóði afar vel, ekki síst við uppbyggingu starfseminnar í samræmi við hlutverk hans. Nú þykir hins vegar rétti tíminn til breytinga og hafa stjórn Úrvinnslusjóðs og Ólafur komist að samkomulagi um að hann ljúki störfum sem framkvæmdastjóri sjóðsins frá og með 1. júlí 2023 að telja.

Að leiðarlokum þakkar stjórn Úrvinnslusjóðs Ólafi Kjartanssyni gott og óeigingjarnt starf í þágu sjóðsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

Starf framkvæmdastjóra verður auglýst á næstu dögum. Margrét Kjartansdóttir lögfræðingur mun gegna hlutverki staðgengils framkvæmdastjóra frá 1. júlí og þar til nýr framkvæmdastjóri hefur störf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert