Í skoðun hvort úrskurðurinn tefji önnur verkefni

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Ég fundaði með Umhverfisstofnun og Orkustofnun í morgun og þar fól ég þeim að greina hvað fór úrskeiðis, en einnig hvað við þurfum að gera til þess að bæta úr,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þegar mbl.is leitaði viðbragða hans við niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi í gær úr gildi virkjanaleyfi Orkustofnunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.

„Það liggur fyrir að við höfum ekki verið að sinna grænu orkumálunum síðustu tíu til tuttugu árin og það er ekki bara raforkan sem þar um ræðir heldur hitaveitan líka, eins og fram kom í skýrslu sem ég hef nýlega kynnt. Okkur vantar græna orku, ekki bara út af loftslagsmarkmiðunum heldur vegna þess að við þurfum nauðsynlega meira af grænni orku,“ sagði Guðlaugur Þór.

Tafir verða á virkjuninni

Setur þú stofnununum einhver tímamörk til að ljúka sinni vinnu?

„Það liggur fyrir að það er í forgangi að vinna þetta mál eins hratt og mögulegr er,“ svaraði hann.

Hvað úrskurður nefndarinnar þýðir fyrir virkjunina segir Guðlaugur Þór að það sé eitt af því sem skoðað verði. „Það verður að greina þennan úrskurð. Það liggur fyrir að það verða tafir á virkjuninni, en hversu lengi verkefnið tefst verður að koma í ljós. Vonandi er þetta bara bundið við þessa virkjun, en það þarf líka að skoða hvort þetta tengist grænorkuframleiðslunni almennt.“

Málið í forgangi

Mun þetta tefja orkuskiptin sem ríkisstjórnin hefur boðað?

„Við skulum taka eitt skref í einu. Við byrjum á því að greina þetta mál og sjá svo til hvað við getum gert í framhaldinu. En þetta mál er í forgangi. Við verðum að sjá hvað er nauðsynlegt er að gera til að við fáum þá grænu orku sem við þurfum að fá, því það liggur alveg fyrir að það þarf að gerast. Ég er fyrir löngu búinn að setja af stað vinnu við sameinginu stofnana og einföldun á regluverki. Í haust munu menn sjá enn frekari merki þess og munu þau mál koma til kasta Alþingis þegar þar að kemur. Ég vona að fólk hafi skilning á mikilvægi þess,“ sagði Guðlaugur Þór.

Vinna að einföldun ferla

„Það skiptir máli að stofnanaumhverfið sé eins skilvirkt og mögulegt er og sömuleiðis erum við eins og aðrir, að vinna að því að einfalda ferla, án þess þó að veita afslátt þeim kröfum sem við viljum gera. Það er engra hagur að það taki fleiri ár eða áratug að klára verkefni sem þessi. Við getum ekki beið svo lengi eftir því. Það er ekki hægt,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert