Aðgerðir stjórnvalda ekki skilað tilætluðum árangri

Loftslagsráð leggur fram sex brýnustu aðgerðir sem sem stjórnvöld eigi …
Loftslagsráð leggur fram sex brýnustu aðgerðir sem sem stjórnvöld eigi að ganga í vegna loftlagsmála. mbl.is/Kristinn Magnússon

Loftslagsráð segir aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum ekki hafa skilað tilætluðum árangri og að landið nái ekki að uppfylla skuldbindingar sínar í loftslagsmálum ef ekki verður gripið í taumana.

Ráðið leggur fram sex brýnustu aðferðir sem stjórnvöld geta beitt sér til þess að lagfæra ástandið.

Loftslagsráð lýkur senn fjögurra ára skipunartíma sínum og því lagði ráðið mat á þann árangur sem náðst hefur síðustu fjögur árin í viðureigninni við loftslagsvá. Loftslagsráð segir að Ísland sé meðal þeirra ríkja sem losað hafa mest magn gróðurhúsalofttegunda miðað við íbúafjölda íbúa frá 1990.

Stjórnvöld uppfylli ekki skuldbindingar sínar

Ísland samþykkti í mars að nauðsynlegt væri að helminga heimslosun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 ef nást ætti að takmarka röskun loftslags við 1,5 °C hækkun á hitastigi. Loftslagsáð segir að Ísland muni ekki ná að uppfylla þær skuldbindingar ef ekki verður gripið í taumana. Þörf sé á grundvallar kerfisbreytingum á öllum sviðum. Því sé brýnt að stjórnvöld fylgist náið með og grípi inn í tímanlega.

Segir í uppgjörinu að við blasi að aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Samdráttur hafi einungis náðst á nokkrum sviðum en heildarlosun hafi aukist. Markviss loftslagsstefna með tímasettum og mælanlegum markmiðum liggi enn ekki fyrir, þó svo að aðgerðaáætlun sé til staðar.

„Við sem þjóð berum sameiginlega ábyrgð á að takast á við loftslagsvána og brýnt að kjörnir fulltrúar, bæði á Alþingi sem og í sveitarstjórnum landsins, axli samábyrgð sína af mun meiri alvöru og þunga,“ segir í uppgjörinu.

Sex skref

Ráðið leggur fram sex brýnustu aðgerðirnar fyrir stjórnvöld:

  1. Að móta markvissa loftslagsstefnu
  2. Að stórefla og styrkja stjórnsýslu loftslagsmála á landsvísu og í sveitarfélögum
  3. Að skerpa aðgerðir stjórnvalda og beita öllum stjórntækjum skilvirkar til að ná markmiðum
  4. Að nýta sérfræðiþekkingu á breiðu sviði loftslagsmála við stefnumótun og eftirfylgni
  5. Að virkja enn frekar getu stjórnvalda og atvinnulífs til að bregðast samtaka við loftslagsvánni
  6. Að bæta verulega í rannsóknir og vöktun á losun frá landi til að undirbyggja ákvarðanir

Loftslagsráð ítrekar einnig áhyggjur sínar í áliti þess þann 9. júní 2022 um að markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda væru óljós og ófullnægjandi. Ráðið hvetur stjórnvöld til að ganga hreint til verka og taka skýrari forystu um nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllum geirum.

Einnig vill Loftslagsráð, að því er segir í skýrslunni, að stefnumörkun og ákvarðanir á sviði loftslagsmála séu teknar á grundvelli bestu fáanlegu þekkingar og þurfi að byggja á sannreynanlegum félags- og hagfræðilegum gögnum um samfélagsleg áhrif loftslagsaðgerða, ekki síður en raunvísindagögnunum.

Stjórnsýsla loftslagsmála færist á neyðarstig

Ráðið segir að samstarf umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins við atvinnulífið hafi tekið stakkaskiptum og „mikill vilji virðist hjá atvinnulífinu um að ganga sameiginlega til verks“.

Það veki vonir um að nú séu þáttaskil í vinnubrögðum en til að svo megi verða þurfi stjórnsýsla loftslagsmála að færast á neyðarstig. Vinna þurfi þétt með atvinnulífi og fjárfestum og veita þeim hratt aðhald og stuðning með tiltækum stjórntækjum. Mikilvægt sé að gagnsæi ríki um markmið, leiðir og árangur.

Ráðið segir losun gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar einnig hlutfallslega mikla hér á landi og því mikilvægt að tölur um kolefnisbúskap vistkerfa séu vel undirbyggðar með vönduðum rannsóknum og vöktun. Þótt stjórnvöld hafi bætt talsvert úr stöðu rannsókna og vöktunar á þessu sviði síðustu árin, sé nauðsynlegt að setja mun meiri kraft í upplýsingasöfnun um kolefnisbúskap vistkerfa landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert