Ekki fréttnæmt fyrir nokkrum árum

Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent hjá Háskóla Íslands, segir að …
Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent hjá Háskóla Íslands, segir að minnkandi hafís umhverfis Íslands flýti fyrir hlýnun sjávar. Samsett mynd

Sárasjaldan á síðustu árum hafa hafísflekar borist á íslenskt hafsvæði. Ísinn getur valdið mikilli hættu fyrir skip sem sigla nálægt honum og þó að mörgum þyki það eflaust góðar fréttir að ísflekunum fækki, er líklegt að fækkunin flýti fyrir hlýnun sjávar, að sögn Ingibjargar Jónsdóttur, landfræðings og dósents við Háskóla Íslands.

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug í gær nálægt norður- og norðausturströndum Íslands til þess að kanna hafís umhverfis landið.

Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent hjá Háskóla Íslands.
Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur og dósent hjá Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mest ís sem myndaðist seinasta vetur

„Þetta var aðallega vetrarís. Við sáum það þar sem hann að hann var frekar flatur og ekkert mjög þykkur. Þetta er væntanlega ís sem hefur myndast norðar í Grænlandshafi síðastliðinn vetur og hefur borist suður með Austur-Grænlandsstraumnum. Núna, þar sem við erum búin að vera með mjög óvenjulegar veðuraðstæður, við erum búin að vera með suðvestan átt svolítið lengi, þá hefur hann verið að berast inn á íslenskt hafsvæði,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

Sá ís sem finnst norðan við landið er nýr ís, en gamall ís er gjarnan þykkari þar sem hann hefur fengið að myndast í lengri tíma.

„Hann er að bráðna. Maður sá það þar sem sjórinn var bláleitari undir honum. Við höfum verið að fá aðstreymi af ís inn á þetta svæði og svo er hann að bráðna,“ segir Ingibjörg og bendir á það að hafísinn geti verið svolítið varasamur, einkum þegar sjófarendur búast ekki við honum.

Kemur með suðvestanáttinni

„Á seinni árum hefur hafísinn ekki verið að koma svona nálægt landi,“ segir Ingibjörg. „Það gerist af og til, þegar við höfum einmitt verið með mikla suðvestanátt, að hafísspangirnar komi. Eins og núna sáum við staka jaka í 8-9 sjómílna fjarlægð frá Hornströndum.“

„Það gerist af og til, þegar við höfum einmitt verið með mikla suðvestanátt, að hafísspangirnar komi“ segir Ingibjörg.

Hafís á íslensku hafsvæði minnkað á síðastliðnum árum.

„Þetta er samt ekkert mjög óvenjulegt þannig lagað og fyrir nokkrum árum hefði þetta ekki talist eitthvað mikið fréttaefni,“ segir Ingibjörg.

„Sá stærsti þeirra jaka sem við sáum var kannski um 20 metrar. Svo var mikið af þeim farið að brotna mikið upp, þannig maður var með [fleka] allt niður í 10-20 sentímetra. En ef við förum norðar eða nær Grænlandi þá erum við með hafísfleka sem geta verið fleiri kílómetrar, en þessi ís hefur brotnað upp með öldugangi,“ segir hún.

Flýtir fyrir hlýnun sjávar

„Við sjáum að útbreiðsla hafíss er almennt minni heldur hún var áður. Það eru til kort sem ná um 100 ár aftur í tímann og gefa til kynna hvað var eðlilegt ástand fyrr á tímum,“ segir hún

„Síðustu áratugina er hægt að nota kort sem landhelgisgæslan útbýr og gervihnattamyndir. Þá höfum við séð að heildar hafísþekjan hefur minnkað frekar mikið.“

Hún segir önnur áhrif vera þau að hlutfall af eldri ís innan ísbreiðunnar hafi farið minnkandi minnka. „Jakarnir eru þynnri og þannig eru þeir fljótari að bráðna upp.“

Haf­ís get­a fylgt kalt loft og jafnvel ís­birn­ir eða sel­ir. Því hef­ur hann reynst óvin­sæll gest­ur meðal lands­manna um ára­skeið.

„Í stóra samhenginu er gott að vera laus við þennan hafís. Hins vegar er þetta hluti af stærra kerfi. Það að ísinn á norðurhafi hefur verið að minnka mikið og hratt hefur í stærra samhengi mjög alvarlegar afleiðingar. Því þetta hraðar hlýnun sjávar mjög mikið. Í staðin fyrir það að vera með yfirborð sem varpar geisluninni mikið þá ertu kominn með dökkan hafflöt sem dregur í sig geislunina og veldur hlýnun,“ segir Ingibjörg að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert