Samningurinn samþykktur með afgerandi niðurstöðu

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Félagsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) samþykktu í gær kjarasamning RSÍ og Landsnets. Formaður sambandsins segir niðurstöðuna jákvæða en hópurinn hefði verið tilbúinn fyrir verkfallsaðgerðir ef til þess hefði komið.

Skrifað var undir samninginn þann 19. júní en verkfall átti að hefjast þann 20. júní. Niðurstöður kosningar um nýja kjarasamninginn voru nokkuð afgerandi en af þeim 41 sem var á kjörskrá kusu 34. Samningurinn var samþykktur með 24 atkvæðum eða 70,9 prósentum. Átta, eða 23,53 prósent, kusu gegn samningnum og tveir, eða 5,88 prósent, tóku ekki afstöðu.

Þetta kemur fram á vefsíðu RSÍ.

Hér má sjá niðurstöður kosningarinnar á myndrænan máta.
Hér má sjá niðurstöður kosningarinnar á myndrænan máta. Ljósmynd/RSÍ

„Mjög gott og sterkt fyrir hópinn“

„Samningurinn er samþykktur sem er auðvitað verulega jákvætt og greinilega nokkuð afgerandi niðurstaða sem er bara mjög gott og sterkt fyrir hópinn. Það er verulega jákvætt að samningurinn sé kominn á og laun hjá okkar félagsmönnum munu þá hækka í samræmi við þetta frá þeim tíma sem samningar hafa verið að gilda, frá nóvember á síðasta ári og fram til loka janúar á næsta ári eins og aðrir kjarasamningar hafa verið að gilda hjá okkur að undanförnu,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, í samtali við mbl.is.  

Þá segir hann endurnýjun þessa samnings vera þá síðustu af þeim sem runnu út í lok síðasta árs.

Spurður hvort það sé ekki mikill léttir að þurfa ekki að beita verkfallsaðgerðum segir hann gott að þurfa ekki að grípa til neyðarúrræðis.

„[...]en við hefðum klárlega verið tilbúin í það ef það hefðu ekki náðst samningar en auðvitað er alltaf markmiðið að ná að skrifa undir kjarasamning og það er auðvitað verulega jákvætt að það tókst þarna,“ segir Kristján að lokum.

mbl.is