Ólafur Pálsson
Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir allan gang vera á því hvort ferðamenn á leið að gosstöðvunum við Merardali og Fagradalsfjall í dag viti af yfirstandandi jarðskjálftahrinu.
Fjöldi ferðamanna átti ferð um svæðið í dag og ræddi Hjálmar við ferðamenn.
Þegar mbl.is bar að garði voru nokkrir hópar ferðafólks nýfarnir af stað í átt að gosstöðvunum og aðrir að ferðbúast.
Hjálmar segir í samtali við mbl.is að viðbragðsaðilar séu fyrst og fremst að fylgjast með ástandinu eins og stendur og að allt sé í rólegheitunum eins og er.
Segir hann lögreglu reyndar hafa ákveðnar áhyggjur af því að fólk fari um brattar hlíðar á meðan jörð skelfur undir því þó ekki sé talin ástæða til að loka svæðinu að svo stöddu.