„Það getur margt skeð á þessu svæði, þegar það fer af stað. Núna mælist töluverð virkni á Reykjaneshryggnum, og þar mætti jafnvel búast við eldgosi undir sjó,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur í samtali við mbl.is.
Síðan 4. júlí hafa 480 skjálftar mælst á Reykjanesshrygg í grennd við Eldey. Um 10 skjálftar yfir 3 og sex yfir 4 að stærð. Sá stærsti 4,5 að stærð og varð hann klukkan 5.06 í nótt.
Ekki eru þó vísbendingar um kvikuinnskot á svæðinu.
Reykjaneshryggur er að hluta neðansjávarhryggur, sem gengur á land á Reykjanesskaga. Reykjanesskagi er því efsti hluti Reykjaneshryggs.
Magnús bendir á að allt frá landnámi hafi gosið reglulega á hryggnum.
„Það gerðist á þrettándu öld, en einnig líklega á þeirri tíundu og tólftu. Umrædd neðansjávargos komu gjarnan í kjölfarið af gosum á landi. Því er ekki útilokað að núverandi þróun gæti leitt til neðansjávargoss á Reykjaneshrygg,“ segir Magnús.
Hann segir svæðið vera mjög spennandi. „Við þekkjum best hrinuna þar á 13. öld, sem er kennd við Reykjaneselda, sem stóðu yfir frá árunum 1210-1240. Þá gaus allavega sex sinnum undir sæ, úti af Reykjanesi. Eldey hefur sennilega myndast þá, í upphafi eldanna,“ bætir Magnús við.
Magnús telur ráðlegt að menn líti til fyrri eldgosa á svæðinu, þegar spáð er fyrir um mögulega atburðarás þess næsta.
„Það yrði nú örugglega í svipuðum dúr og áður, líkt og í gosinu 1783. Þá reis eyja úr sæ, sem var nefnd Nýey, en hún hvarf fljótt aftur. Þetta yrði líklega svipað og með Nýey, og ólíklegt að hún myndi varðveitast lengi, nema ef það rynni hraun í kring líkt og við Surtsey.
Það verður spennandi að sjá hvort það fari eitthvað að gerast þarna í sjónum, en neðansjávargos myndi klárlega hafa meiri áhrif á flug og ýmislegt í þeim dúr,“ segir Magnús.