Nú stefnir í að gangurinn undir svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis sé að fara að gjósa. Komi gosið upp á því svæði verður afl þess svipað og í gosinu 2022. Það þýðir að framleiðni þess verður um 10 rúmmetrar á sekúndu.
Þessar upplýsingar koma fram í færslu frá rannsóknarstofu í eldfjallafræðum og náttúruvá við Háskóla Íslands. Hefur sömuleiðis verið spáð í hvaða leið hraunið muni renna og má sjá á meðfylgjandi mynd í dökkrauðu þær leiðir sem líklegastar þykja. Ljósari svæði eru þau sem ólíklegri eru talin að hraunið muni renna.
Mismunandi sviðsmyndir hafa verið skoðaðar. Ein er sú að því sunnar sem gossprungan er, því meiri líkur eru á því að nýja hraunið flæði yfir gígana og hraunið frá 2022 og niður í Merardali.
Ef hún opnast miðja vegu þarna á milli, er líklegast að hraunið renni til austurs í átt að Núpshlíðarhálsi.
Ef hins vegar gossprungan er nær Keili, þá aukast líkurnar á því að hraun flæði til norðurs og niður eftir hlíðum Þráinsskjaldar.