Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir ráðstöfun þá sem hún greip til hvað varðar tímabundna stöðvun á veiðum langreyða vera óvenjulega vel undirbyggða.
Segist Svandís í samtali við mbl.is hafna skilningi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem gagnrýnt hafa málatilbúnað ráðherra harðlega, telja reglugerðina ólögmæta og að hún brjóti í bága við atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæði stjórnarskrár.
Svandís segir ráðstöfun sína afar vel undirbyggða af minnisblöðum og ráðgjöf innan ráðuneytisins. „Niðurstaðan er í beinu framhaldi af ráðgjöf ráðuneytisins.“
Hún segist aðspurð ekki telja gagnrýnina eiga neinn rétt á sér og ítrekar að staðan hafi verið metin í ráðuneytinu í kjölfar niðurstöðu fagráðsins.
„Þá metur ráðuneytið stöðuna og gerir til mín tillögu sem verður síðan grundvöllur minna ráðstafana,“ segir ráðherra.
Sinntir þú rannsóknarskyldu þinni og gættir meðalhófs í þessu máli?
„Það er þannig með þessa ráðstöfun sem þarna er gripið til að hún er óvenjulega vel undirbyggð,“ segir Svandís.