Endurmeta lokunina í dag

Mynd tekin af eldgosinu í gærkvöldi.
Mynd tekin af eldgosinu í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðbragðsaðilar, almannavarnir og Veðurstofa Íslands munu funda klukkan 9 vegna eldgossins á Reykjanesskaga, þá verður líklega ákveðið hvort gosstöðvarnar verði opnaðar fyrir almenningi. 

Þetta segir Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofa Íslands, í samtali við mbl.is en almannavarnir hafa beðið fólk að halda sig frá gosstöðvunum fyrst um sinn.

„Við mælum ekki með því að fólk sé að fara en staðan verður endurmetin í dag. Almannavarnir og viðbragðsaðilar meta hvort það verði opnað eða ekki.“

Gasmengun hvergi nærri hættumörkum

Hún segir að gasmengun hafi hvergi farið nálægt hættumörkum í nótt en suðlæg átt hefur verið ríkjandi yfir gossvæðinu.

Vindur snýst nú í norðvestlæga átt 5-10 m/s og tekur því gasmengun að berast til suðurs út á haf. Því mun draga úr menguninni.  

Áfram verður þó líklega gasmengun á höfuðborgarsvæðinu, Vogum, Vatnsleysu og Reykjanesbæ.

Hulda segir að seinnipartinn komi ákveðnari norðanátt og þá fari öll gasmengun út á sjó. 

Virknin samfelld

Hefur virknin komið að einhverju leyti á óvart hingað til?

„Nei, það hefur bara verið svona nokkuð samfelld virkni í þessari sprungu,“ segir Hulda. 

Hraunið rennur til suðurs og hefur breitt úr sér austan við Litla-Hrút. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert