Nýta göngustígana og bílastæðin

Níu kílómetrar eru frá bílastæðunum að eldgosinu við Litla-Hrút.
Níu kílómetrar eru frá bílastæðunum að eldgosinu við Litla-Hrút. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eldgosið kemur upp þannig séð á heppilegum stað, “ seg­ir Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi al­manna­varna, spurð út í gerð göngustíga við gossvæði á Reykjanesskaga. 

Nú stendur yfir fundur í Björg­un­ar­miðstöðinni í Skóg­ar­hlíð um hvort gosstöðvarnar verði opnaðar. 

Hjördís segir að er gosstöðvarnar verði opnaðar þá verði hægt að nýta þá göngustíga sem eru til að hluta, ásamt bílastæðunum. 

Hún segir þá innviði sem er nú þegar búið að byggja upp vegna fyrri eldgosa heppilega. „Við munum geta nýtt þá innviði.“ 

Ekki staður fyrir lítil börn

Níu kílómetrar eru frá bílastæðunum að eldgosinu við Litla-Hrút. 

„Níu kílómetra ganga tekur á. Hún getur tekið einhverja klukkutíma,“ segir Hjördís og bætir við að fólk sé í misgóðu formi. 

„Það sem við munum leggja gífurlega áherslu á þegar við opnum svæðið er að þetta er ekki staður fyrir lítil börn að vera, þrátt fyrir að það sé opið,“ segir hún og minnist á bannið sem var í gildi í síðasta gosi fyrir tólf ára og yngri. 

„Það er ástæða fyrir því af hverju lögreglustjórinn í þessu tilviki ákvað að gera þetta. Fólk var að fara með alltof ung börn af stað.“

Fólk fylgist með 

Lokun gosstöðvanna er vegna gasmengunar á svæðinu og því er verið að afla upplýsinga um hvert er best að beina fólki sem ætlar að ganga að eldgosinu.

Hjördís biðlar til fólks að fylgjast vel með, sérstaklega hvað varðar loftgæðin. 

Hún segir að ekki þurfi að rýma nein svæði vegna mengunar og þá séu innviðir ekki í hættu. 

„Við erum ekki að búast við því að það þurfi að rýma eitt né neitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert