Hljóp Laugaveginn í fjórða skiptið 75 ára

Jóhann ákvað að byrja að hlaupa þegar hann var um …
Jóhann ákvað að byrja að hlaupa þegar hann var um fimmtugt. Um helgina hljóp hann Laugaveginn í fjóðra skiptið. Hver er þín afsökun? Ljósmynd/Aðsend

Hinn 75 ára gamli Jóhann Karlsson hljóp Laugavegshlaupið um helgina. Segir hann að þetta vera síðasta skiptið sem hann hleypur Laugaveginn, en hann hefur nú gert það fjórum sinnum.

579 manns tóku þátt í hlaupinu og var Jóhann í 141. sæti allra keppenda, en fremstur í flokki 70 ára og eldri.

Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup, leiðin tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands. Jóhann hljóp vegalengdina á rétt tæplega sex og hálfri klukkustund (6:29:31).

„Ég stefndi nú að vísu á styttri tíma en ég er alveg sáttur með þetta,“ segir segir Jóhann í samtali við mbl.is.

Björn Tryggvason hafnaði í öðru sæti í flokki karla yfir sjötugt, á tímanum 7:33:47 og Egill Guðmundsson var í þriðja sæti á tímanum 07:49:36.

Við hlið Jóhanns standa Björn Tryggvason (2. sæti) og Egill …
Við hlið Jóhanns standa Björn Tryggvason (2. sæti) og Egill Guðmundsson (3. sæti). Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði um fimmtugt

„Þegar ég var um fimmtugt byrjaði ég að hlaupa og hef hlaupið stöðugt síðan,“ segir hann. „Það var nú aðallega til þess að grenna mig, ég var farinn að fitna aðeins. Svo fann ég út að ég hafði bara ánægju af þessu.“

Jóhann hefur nú hlaupið Laugaveginn fjórum sinnum. Fyrst hljóp hann leiðina árið 2009, svo aftur fyrir þremur árum, síðan aftur fyrir tveimur árum og í fjórða skiptið í gær. Hann segist hins vegar ekki vera viss um að hann ætli að hlaupa Laugarveginn aftur.

„Ég er frekar efins um að ég fari aftur. Held að ég sé orðinn fullgamall fyrir þetta. Þetta reynir dálítið á,“ segir hann, en bætir við að hann ætli þó alls ekki að hætta alfarið að hlaupa.

„Nei, ég held ég fari bara í styttri hlaup,“ segir Jóhann að lokum.

mbl.is