Um miðjan júní höfðu verið framkvæmdar um 160 liðskiptaaðgerðir samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands við Klíníkina og Handlæknastöðina (Cosan). Stefnt var að því að framkvæma 700 aðgerðir á þessu ári til að stytta biðlistana sem höfðu hrannast upp. Átakið fer því ansi hægt af stað.
Sigurður Helgi Helgason forstjóri Sjúkratrygginga segir þetta nokkuð undir væntingum um fjölda aðgerða.
„Það vekur nokkrar áhyggjur hversu fáir hafa brugðist við skilaboðunum á Heilsuveru,“ segir Sigurður Helgi og hvetur fólk sem bíður eftir aðgerð til að svara skilaboðum í gegnum Heilsuveru.
Í kjölfar samningsins í mars sl. var ákveðið að nýta Heilsuveru til að bjóða fólki aðgerðir. Voru skilaboð send á nærri 900 manns. Aðeins um 250 manns hafa svarað þeim skilaboðum. Af þeim hópi þáðu einungis 83 boð um aðgerð hjá fyrrnefndum fyrirtækjum, 66 völdu að vera áfram á biðlista þeirrar stofnunar sem þeir voru þegar á.
Umtalsverður hópur, eða 76 manns, hafði þegar farið í aðgerð og 22 áttu bókaðan tíma í liðskiptaaðgerð hjá öðrum hvorum samningsaðilanum.
Markmiðið með samningi Sjúkratrygginga við Klíníkina og Cosan var að stytta langa biðlista en margir höfðu beðið lengi eftir því að komast í slíka aðgerð eða neyðst til að ferðast út fyrir landsteinana til að stytta sér biðina með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn.
Stefnt var að því að útrýma biðlistum á fáeinum mánuðum með því að auka afkastagetu heilbrigðiskerfisins hér heima en margir héldu til Svíþjóðar í liðskiptaaðgerðir og fylgdu þeim jafnan íslenskir læknar sem framkvæmdu aðgerðirnar á erlendri grundu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag