„Ruslið hefur alltaf fylgt manninum. Það sem við notum endar einhvers staðar, við vitum það, og við vitum líka að allt sem við gerum hefur áhrif. Samt sem áður er mýtan um að ruslið hverfi um leið og það er komið í ruslatunnuna ansi lífseig,“ segir Rakel Jónsdóttir þjóðfræðingur í samtali við Morgunblaðið. Hún rannsakar rusl og allt sem því tilheyrir, viðhorf okkar til þess og þær tilfinningar sem það vekur.
Rakel segir aukna umræðu um rusl og áhrif þess á okkur hafa kveikt áhuga sinn á viðfangsefninu. „Fólk neyðist í rauninni til að horfast meira í augu við ruslið sitt núna heldur en oft áður, vegna þess að það er stöðugt að flokka og endurvinna og slíkt. Þá vakna ýmsar spurningar, eins og til dæmis hvenær hlutur er álitinn óæskilegur og verður að rusli. Er rusl ekki bara hlutur á röngum stað?“
Ruslið sé að auki áminning um óæskileg umhverfisáhrif og yfirvofandi loftslagsvá. Það geti því vakið kvíða. „Upplýsingarnar sem maður fær um umhverfismál eru oft yfirþyrmandi. Fólki fallast hendur og það upplifir vanmátt. Að horfast í augu við ruslið krefst aukinnar meðvitundar um þessi áhrif.“
Rannsóknin hverfist um ruslatunnuna og samband okkar við hana. „Það mætti kannski segja að ég sé að sálgreina fólk út frá ruslinu,“ segir Rakel kankvís.
„Ég hef áhuga á fólki og hef verið að skoða þetta flókna samband sem fólk hefur við ruslið sitt. Hluti af rannsókninni er eins konar tilraun eða gjörningur, þar sem ég bið fólk um að taka myndir af ruslinu sínu. Þá er ég að skoða hvað gerist þegar fólk horfir ofan í ruslatunnuna og áhrifin sem þetta kallar fram. Flestir upplifa skömm og jafnvel samviskubit, og oft fylgja líka afsakanir á því hvað sé í ruslinu. Þetta er auðvitað mjög persónulegt og getur verið feimnismál, maður getur sagt svo mikið um manneskju með því að skoða ruslið hennar. Það hafa til dæmis flestir heyrt af því að glæparannsóknir hafi verið leystar með gramsi í rusli hins grunaða,“ segir Rakel og bætir við að þátttaka í tilrauninni sé að sjálfsögðu valfrjáls.
Spurð hvort henni finnist sjálfri viðfangsefnið ekki dálítið vandræðalegt, hlær Rakel og svarar: „Jú jú, stundum þegar ég er að fara ofan í ruslatunnuna með símann á förnum vegi fæ ég svolítið undarleg augnaráð. En ég er líka oft að taka myndir af alveg furðulegustu hlutum.“
Hún nefnir að viðhorf fólks og umgengni þess gagnvart rusli hafi breyst mikið í gegnum tíðina. Í dag hafi orðið „plast“ til að mynda nánast alfarið neikvæða merkingu. Sú hafi raunin ekki alltaf verið. Að auki sé fólk farið að líta á rusl í auknum mæli sem möguleg verðmæti, en það helst í hendur við aukna áherslu á endurnýtingu.
„Svo er líka svolítið skemmtilegt að börn sjá rusl allt öðruvísi en fullorðnir, nánast sem einskonar fjársjóð. Fyrir þeim er rusl gjarnan eitthvað ævintýralegt, spennandi og skrýtið. Þetta er viðhorf sem við vöxum svolítið upp úr með aldrinum.“
Að sögn Rakelar er tilgangurinn með rannsókninni ekki síst að vekja umræðu um rusl og hrekja þá hugmynd að það hverfi líkt og fyrir töfra um leið og það er komið í ruslafötuna. Hún segir að þrátt fyrir að vitundarvakning hafi orðið um mikilvægi endurvinnslu leifi enn eftir af gömlum viðhorfum. Þá efist margir, sem hún hefur talað við, um að ruslið sitt endi á réttum stað. „En það er hægfara breyting að eiga sér stað í viðhorfi gagnvart endurvinnslu og ýmislegt að gerjast í samfélaginu. Við getum öll haft einhver áhrif.“