Enn mallar í gígnum

Eldgosið séð vestanmegin við það, frá Ltila-Hrút.
Eldgosið séð vestanmegin við það, frá Ltila-Hrút. mbl.is/Eyþór

Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu við Litla-Hrút undanfarna daga. Þá hefur gasmengun einungis mælst við Fagradalsfjall í grennd við gosstöðvarnar. 

„Það hefur í rauninni lítið breyst síðan um helgina,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvásérfræðingur. „Það mallar áfram í gígnum og óróinn er á sínum stað.“

Hún segir erfitt að segja til um hvenær gosið taki enda. 

„Síðasta mæling Háskóla Íslands var 24.júlí sem staðfesti hægt minnkandi hraunrennsli. Ef það minnkar eins og það hefur verið að gera þá gæti þetta þýtt goslok fljótlega, en auðvitað vitum við ekki hvað gerist. Það getur vel verið að þetta haldist stöðugt í nokkurn tíma eða aukist, maður veit það ekki alveg. Það er erfitt að spá fyrir um það.“

Að sögn Lovísu er lengd gossins háð því að kvikan fóðri gosrásina. „Það fer eftir því hvort kvikan haldi áfram að leita upp á við. Það er kvika á einhverju dýpi og ef hún hættir að fóðra gosrásina hættir gosið,“ segir Lovísa. 

Gasmengun í lágmarki

Þegar dregur úr styrk gossins má gera ráð fyrir því að gasmengun minnki um leið, en lítil gasmengun hefur mælst síðustu daga. 

„Það hefur einungis verið að mælast mengun við Fagradalsfjall,“ segir Haraldur Ólafsson veðurfræðingur.

„Vindurinn er svo hægur að gasið er ekkert að fara langt frá gosstöðvunum. Þannig að ef einhverrar mengunar verður vart er það helst við gosstöðvarnar.“

mbl.is
Loka