Mengunin mælist á gervitungli

Gervitunglamynd frá Sentinel 5p sem sýnir þéttleika SO2 í andrúmsloftinu.
Gervitunglamynd frá Sentinel 5p sem sýnir þéttleika SO2 í andrúmsloftinu. Ljósmynd/Veðurstofa Ísland

Gervitunglamynd frá Sentinel 5p sýnir þéttleika brennisteinstvíoxíð (SO2) í andrúmsloftinu við Ísland í gær klukkan 14.09. Veðurstofa Íslands birti myndina í dag.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruváfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir myndina sýna að mest af gasinu í gær hafi safnast saman úti á hafi rétt vestan við Reykjanes en einnig mengun hjá gosstöðvunum við Litla-Hrút.

SO2 blæs út á haf

„Það eru í raun engar nýjar upplýsingar á myndinni en við settum hana út því hún er skýr og sýnir þéttleika SO2 í andrúmsloftinu. Þar sem er rauðasti liturinn er mest af SO2,“ segir Salóme. Hún tekur fram að það sé erfitt að meta hve mikil mengunin sé út frá gervitunglamyndinni en að hún sýni hvar mengunin er mest.

Hún vekur jafnframt athygli á gasmengunarspánni á vef Veðurstofu Íslands þar sem hægt er að sjá hve mikil mengun er á Reykjanesskaganum.

Gas rís yfir gosstöðvarnar

Spurð hvort að mikil mengun mælist nú á gosstöðvunum svarar hún því neitandi. 

„Við erum ekki að mæla mikið á mælunum sem eru nálægt þó að líkönin geri ráð fyrir því. Þetta fer líka eftir því hversu hátt gosmökkurinn rís. Ef hann fer mjög hátt þá fer megnið af gastegundunum töluvert ofar og þá sleppa gosstöðvarnar við megnið af gasmenguninni en það er alltaf tilefni til að vara við og hafa varann á.“

Hún minnir á að koltvísýringur (CO2) geti safnast saman í lægðum og dældum og ef fólk dvelur þar sem CO2 safnast saman eigi það í hættu á að kafna.

Gasmengun á til að snúa aftur í öðru formi

Hún ítrekar að vindátt ráði því hvert gasmengunin berst. Síðan að eldgosið hófst við Litla-Hrút hefur vindáttin að mestu ollið því að mengunin berst út á haf en Salóme bendir á að mengunin eigi til að snúa aftur á land í öðru formi.

„Þegar að gosið hófst var ríkjandi norðanátt og gosmökkurinn fór allur suður fyrir landið. Þá fékk sá loftmassi tími til að hvarfast við súrefni og myndaði súlfat (SO4) sem er þessi gosmóða og það kom aftur yfir landið. Það er þessi gosmóða sem var yfir höfuðborgarsvæðið.“

Hún segir að súlfat geti einnig verið skaðlegt en segir að það sé erfiðara að mæla það og vandkvæðum bundið að spá fyrir um súlfatmengun. 

„Þetta er það sem að mældist á öllum þessum svifryksmælum og olli móðunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert