Baráttumál trans fólks í brennidepli

Hinsegin dagar voru settir með götumálun á Vegamótastíg.
Hinsegin dagar voru settir með götumálun á Vegamótastíg. Ljósmynd/Ragnar Veigar Guðmundsson

„Hinsegin dagar voru settir í hádeginu með viðhöfn þar sem við máluðum Vegamótastíg í litum transfánans til þess að setja okkar mark á miðborgina og lyfta sérstaklega málstað og baráttumálum trans fólks sem er sá hópur í hinsegin samfélaginu sem finnur kannski hvað skýrast hvernig umræðan er að breytast og verður fyrir þessu bakslagi sem við höfum verið að tala um,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga. 

Opnunarhátíðin verður haldin í kvöld í Gamla Bíó með tónlist og stemningu en að sögn Gunnlaugs er stútfull dagskrá af alls konar viðburðum alla vikuna og nær hátíðin svo hámarki á laugardaginn með Gleðigöngunni. Vonast hann til þess að þjóðin sameinist með hinsegin samfélaginu og fagni fjölbreytileikanum.

Meðal þess sem er á dagskrá á Hinsegin dögum í ár eru dragviðburðir í Iðnó, Regnbogaráðstefna á fimmtudaginn og kvikmyndasýningin Welcome to Chechnya í Bíó Paradís síðdegis á morgun en frítt verður inn á sýninguna. 

Baráttan ekki búin

Tekur Gunnlaugur fram hversu mikilvæg hátíðin er, en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 1999. „Þessi sýnileiki, þessi samstaða, við sem hinsegin samfélag komum saman og finnum kraftinn og fáum að upplifa það að vera í meirihluta ef svo má segja. Við komum saman og sköpum okkar hinsegin rými þar sem við þurfum ekkert að útskýra okkur eða afsaka.

En svo er það bara þessi áframhaldandi barátta sem hefur alltaf verið mikilvæg og við kannski sjáum það kannski kristallast svolítið í þessari umræðubreytingu baráttan er sannarlega ekki búin og við þurfum halda henni áfram,“ segir hann. 

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður hinsegin daga, hefur verið viðloðandi hinsegin …
Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður hinsegin daga, hefur verið viðloðandi hinsegin daga í áratug. Ljósmynd/Ragnar Veigar Guðmundsson

Bakslag í réttindabaráttu

Aðspurður segir hann bakslag hafa átt sér stað í garð hinsegin samfélagsins seinustu ár. „Ég er búin að vera viðloðandi hinsegin daga í áratug, og fyrstu árin frá 2013 þegar ég kem inn fannst mér maður finna mjög jákvæða þróun frá ári til árs. Neikvæðum ummælum og erfiðri orðræðu fannst manni fara minnkandi og þátttaka á hátíðinni alltaf að aukast.

Vegamótastígur skartar nú litum transfánans.
Vegamótastígur skartar nú litum transfánans. Ljósmynd/Ragnar Veigar Guðmundsson

En í fyrra vorum við farin að vera vör við upphafið af þessu bakslagi og við höfum bara áfram orðið vör við það núna undanfarið ár, bæði hér heima og erlendis. Ungt hinsegin fólk er að finna fyrir meira aðkasti, orðræða sem tíðkaðist ekki lengur um trans fólk og þeirra réttindi er farin að láta á sér kræla aftur og við vitum að ef það er byrjað að narta í réttindi eins hóps þá er orðið mjög stutt í að það verði ráðist á réttindi annarra hópa, og það er þá ekki endilega bara innan hinsegin samfélagsins,“ segir Gunnlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert