Lögreglan á Vesturlandi skoðar tilkynningu sem henni barst í morgun um ásakanir í garð Valdimars Einarssonar og Daða Einarssonar, föður Ásmundar Daða Einarssonar mennta- og barnamálaráðherra.
Um er að ræða myndband sem sýnir Valdimar keyra dráttarvél á bróður sinn, Skúla Einarsson, auk þess sem hann er sakaður um að hafa stolið tösku frá hinum síðarnefnda.
Mbl.is ræddi við Jón S. Ólason, yfirlögregluþjón lögreglunnar á Vesturlandi.
Lögreglan á Vesturlandi er sökuð um langvarandi aðgerðarleysi í þessu máli. Er ekki kominn tími til að svara fyrir það?
„Það hafa engar kærur eða neitt verið lagt fram enn þá.“
Þarf ekki lögreglan að mæta á vettvang svo hægt sé að kæra málið?
„Það er ekki endilega þannig. Sérstaklega ef við fáum vitneskju um eitthvað löngu seinna, þá er erfiðara að eiga við það. Við fengum vitneskju um þetta með tölvupósti í morgun.“
Ása Skúladóttir segir hins vegar í skriflegu svari til mbl.is að lögreglu hafi verið tilkynnt um ákeyrsluna og stuldinn á föstudaginn, þegar atvikin áttu sér stað. Hún og systur hennar saka lögregluna um langvarandi aðgerðarleysi í deilunum og velta því upp hvort lögregla neiti að aðhafast þar sem ráðherra tengist málinu.
Jón neitar því að málið hafi komið til lögreglu fyrr. Menn bíði eftir að kæra berist. Eftir að lögreglu var bent á málið í morgun fari það hins vegar í farveg.
Spurður hvort lögregla hafi neitað á vettvang þegar henni hafi verið tilkynnt um skemmdarverk og innbrot á Lambeyrajörðinni svarar Jón að hann kannist ekki við tilvikið sem um ræðir. Um sé að ræða deilur.
Mbl.is leitaðist eftir því að ná sambandi við lögreglustjórann á Vestjförðum en vísað var á Jón til til svara.
Ásmundur tjáði sig um ættardeilurnar í júlí, sem snúast um ættarjörðina Lambeyri, en þar sagðist hann ávallt hafa tekið einarða afstöðu með föður sínum.