Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir Þjóðhátíð í ár hafa farið betur fram en oftast nær áður. Ofbeldismál hafi verið mun færri en undanfarin ár og hátíðin gengið stórslysalaust fyrir sig.
„Ég get ekki betur séð en að þessi Þjóðhátíð fari bara betur fram heldur en oftast nær áður og ein sú alrólegasta Þjóðhátíð löggæslulega séð sem ég man eftir, þetta er sautjánda Þjóðhátíðin mín sem lögreglustjóri,“ segir Karl Gauti í samtali við mbl.is.
Þau mál sem upp komu um helgina eru í hefðbundnum farvegi hjá lögreglu og mun ágústmánuður fara í skýrslutökur.
„En þetta eru nú ekki stórir bunkar.“
Lögreglan hefur eitt kynferðisbrotamál til rannsóknar og þá urðu þrjár minniháttar líkamsárásir.
Hann segir að gerandi í líkamsárásarmálunum sé ekki alltaf þekktur og skoðar lögregla hvort eitthvað sjáist á myndefni.
Þá séu langflest fíkniefnamálin minniháttar, en þó tvö sölumál sem teljast alvarlegri.
Karl Gauti kveðst heilt yfir sáttur með helgina.
„Samvinnan á Þjóðhátíð hefur alltaf verið að batna og menn eru mjög vel vakandi hér. Öll umgjörð og aðkoma er alltaf að taka framförum. Þessi fundarumgjörð, það er að segja að fólk sé að hittast og fara yfir málin, koma með athugasemdir og benda á það sem má bæta, bæði fyrir hátíðina og meðan á hátíðinni stendur, það er mjög góður bragur á því.“
Flestir Þjóðhátíðargestir eru farnir heim en þó eru einhverjir í bænum með töskur á leið niður að bryggju. Fullbókað er í Herjólf fyrir bifreiðar í dag og á morgun.
„Menn með hjólhýsi og fellihýsi eru að reyna að komast á veginn og það eru auðvitað bara biðraðir og biðlistar, menn eru að reyna að komast kannski fyrr en þeir eiga pantað.“