Áskorun að halda áfram í langan tíma

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is að það hafi alltaf legið fyrir að það yrði áskorun að halda þriggja flokka stjórnarsamstarfi áfram í langan tíma.

Tilefnið er orð ýmissa flokksfélaga hans um ríkisstjórn í miklum ógöngum og mögulegan klofning í flokknum.

Þinglokin vonbrigði

„Ég held að menn hafi nú tekið full djúpt í árinni og sumum líður virðist vera á stundum eins og öll sund séu lokuð en það er að sjálfsögðu ekki þannig. Það breytir því ekki að þinglokin voru viss vonbrigði fyrir okkur í þingflokki Sjálfstæðismanna og ég held að það eigi við um hina stjórnarflokkana reyndar líka.“

Bjarni segir stjórnarliða hafa verið mjög opna um að þetta væri á margan hátt dálítið óvenjulegt en segir að þessi spil hafi menn fengið eftir kosningarnar 2017 og 2021.

„Sumir hafa sagt að það eigi bara að kasta þeim aftur á borðið og beðið um að það sé gefið upp á nýtt. Ég er ekki sannfærður um að það sé skynsamlegt. Ég held að það sé til mjög mikils vinnandi að halda stöðugleika í stjórnmálum á Íslandi og gefast ekki upp þó á móti blási.“

Segist hann halda að kjósendur kunni á endanum að meta þrautseigju en auðvitað sé það þannig að ekki sé hægt að fórna hverju sem er fyrir stöðugleikann.

Græn orkuöflun, verðbólga og kostnaður vegna hælisleitenda

„Við vitum hvaða mál það eru sem við viljum helst setja á oddinn. Það þarf að gera átak í grænni orkuöflun. Það er of lítið búið að gerast í að afla nýrrar grænnar orku og í sumum tilvikum eins og við höfum séð núna á síðustu misserum erum við því miður að fara afturábak eins og Hvammsvirkjun er dæmi um. Við verðum að hafa úthald til að ná niður verðbólgunni, það er gríðarlega mikilvægt.

Við þurfum nauðsynlega að koma böndum á kostnað vegna hælisleitenda á Íslandi. Það er algjörlega óréttlætanlegt að það fari meira en milljarður á mánuði í að takast á við þessar umsóknir. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn með þetta ráðuneyti og við verðum einfaldlega að halda áfram að koma með tillögur og berjast fyrir því að fá þær samþykktar í þinginu. Möguleikar okkar til þess munu ekki vaxa við það að einhverjir aðrir fari í dómsmálaráðuneytið.“

Ræðum stöðuna ef við klessum á vegg

Segist Bjarni munu tala inn í sinn hóp fyrir því að standa saman og halda áfram að berjast.

„Þó að það séu dæmi um mál þar sem við viljum ná meiri árangri þá er það samt þannig að samfélagið er á fleygiferð, fólk hefur vinnu og það er meiri hagvöxtur á Íslandi en á við í flestum öðrum löndum. Ríkisfjármálin eru á hraðbyr í rétta átt og við erum langt á undan áætlun með það að draga úr hallanum og við þurfum bara að halda áfram að finna lausnir.

Ef við klessum á vegg, sem við höfum ekki gert ennþá, þá skulum við ræða stöðuna en það er bara ekki komið að því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka