Gott útsýni að flugeldasýningu á Menningarnótt

Flugeldasýningin á Menningarnótt ætti að sjást vel á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Flugeldasýningin á Menningarnótt ætti að sjást vel á öllu höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Það má reikna með því að það birti til á Suður- og Vesturlandi í kvöld. Þannig ætti flugeldasýningin á Menningarnótt að sjást vel á öllu höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Búast má við suðaustlægri átt, 5-13 metrum á sekúndu í dag með rigningu eða súld, einkum vestanlands en þurrt að kalla norðaustantil. Það styttir víða upp suðvestanlands í kvöld.

Á morgun má búast við suðaustan 8-15 metrum á sekúndu og rigningu með köflum sunnantil, hvassast syðst en hægari og þurrt norðan heiða. Hiti verður yfirleitt á bilinu 12 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.

Snarpar vindhviður varasamar ökummönnum með tengivagna

Allmikil og hægfara lægð langt suður í hafi stýrir veðrinu fram yfir helgi ef marka má hugleiðingar veðurfræðings. Það þýðir að austanáttir verða ríkjandi, jafnvel allhvassar allra syðst. Því er í gildi athugasemd vegna snarpra vindhviða undir Eyjajfjöllum og í Mýrdal á morgun sem gætu verið varasamar ökumönnum til dæmis með tengivagna.

Lægðin blæs hlýju lofti yfir landið þannig að hitatölur verða með skásta móti en hlýja loftinu fylgir vitaskuld einnig raki frá hafinu umhverfis sem skilar sér í rigningu eða súld með köflum, einkum sunnan- og vestanlands, eins og segir í hugleiðingunum.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert