Mikill erill var við Goðafoss í Skjálfandafljóti þegar blaðamaður og ljósmyndari mbl.is áttu leið þar um í morgun. Þrettán rútur blöstu við Fosshól þegar komið var niður af Fljótsheiðinni en í þeim voru ferðamenn sem komu með skemmtiferðaskipum til Akureyrar.
Þrjú skip lögðu að bryggju við Akureyri í dag og það sást greinilega við Goðafoss sem er fyrsti áfangastaður Demantshringsins.
Staðarhaldari sagði í samtali við blaðamann að svona hefði þetta verið á næstum því hverjum einasta degi við Goðafoss í sumar. Það leyndi sér þó ekki þegar mörg eða stór skip leggðu að bryggju á Akureyri, þá væri maður við mann á göngustígnum að fossinum.
Auk rútnanna voru samkvæmt ónákvæmri talningu blaðamanns í það minnsta hundrað bílar á bílastæðinu vestan við fljótið.