„Dimmviðrið er svo mikið, vegna reykjarins, að hér er erfitt að átta sig á hlutunum og mikið neyðarástand,“ segir Vestmannaeyingurinn Kristinn Magnús Óskarsson í samtali við mbl.is, líffræðingur og kennari á eftirlaunum, búsettur í Abbotsford í Bresku-Kólumbíu í Kanada, þar sem tæplega 400 skógar- og gróðureldar loga nú.
Abbotsford er rúmlega 170.000 manna bær sjötíu kílómetra suðaustur af stórborginni Vancouver með sínar 2,7 milljónir íbúa svo Kristinn sé staðsettur nokkurn veginn. Vestmannaeyingurinn er enginn nýgræðingur þegar náttúruhamfarir eru annars vegar, var á nítjánda ári þegar eldgos hófst í Heimaey í janúar 1973 og hefur nú búið í Bresku-Kólumbíu í Kanada frá 1987 en síðustu 20 árin kveður hann skógarelda hafa orðið æ tíðari þar og víðar í landinu.
„Þessi eldur, sem er kallaður Adams Lake-eldurinn, hefur geisað á svæðinu kringum Scotch Creek í rúman mánuð,“ segir Kristinn frá en þau Laura Withers, eiginkona hans, eiga sumarbústað í Scotch Creek, svæði sem nú hefur verið rýmt algjörlega vegna eldanna.
Segir Kristinn frá hrikalegum eyðingarmætti skógareldanna en trjágróður þar á svæðinu – og víðast hvar um Bresku-Kólumbíu – er að mestu 30 til 50 metra há furutré, gríðarmikil vexti, og sedrustré. Adams-áin, þar á svæðinu, er heimsþekkt fyrir mikla gengd rauðlax, eða sockeye salmon, eins og tegundin kallast á ensku.
Þau hjónin voru í bústað sínum en höfðu sig á brott sem skjótast þegar yfirvöld gáfu tilskipun um tafarlausa rýmingu í Scotch Creek. „Það sem hægt var að sjá og heyra þaðan af svæðinu eftir að við vorum farin gaf til kynna að mest af svæðinu hefði brunnið,“ segir Kristinn frá, „ég taldi víst að sumarbústaðurinn hefði orðið eldinum að bráð. Vinur Berglindar dóttur okkar fór á bát frá suðurströnd Shuswap-vatnsins til að kanna ástand bústaðarins og tók mynd svo við gætum séð ástandið. Hún er eina sönnun þess að bústaðurinn stendur enn,“ heldur hann áfram.
„Þetta byrjaði í maí þegar hætti að rigna, maður minnist ekki á rigningu þegar koma nokkrir dropar úr lofti og þorna eins og skot,“ segir Vestmannaeyingurinn og vottar fyrir glettni í röddinni. Talandi um rödd er það þó langt í frá hans hefðbundna rödd sem blaðamaður hlýðir á í þessu viðtali.
„Reykurinn breytir öllu, maður fær í augun og þetta fer í hálsinn á manni og röddin breytist líka, maður hljómar eins og maður sé með slæmt kvef. Þetta er ekki mín venjulega rödd sem þú heyrir núna,“ segir Kristinn frá en reykurinn frá tæplega 400 eldum, mörgum hverjum algjörlega óviðráðanlegum, liggur yfir svo gott sem allri Bresku-Kólumbíu.
„Hitinn hefur verið svakalegur, hitastig vatnsins í ánum þarna upp frá [í Scotch Creek og nágrenni] er fimm gráðum hærri en í vanalegu ári,“ segir Kristinn og á við selsíusgráður.
Adams Lake-eldurinn er langt frá því að vera nýkviknaður, hann hefur geisað frá því um júlímánuð miðjan. „Af 381 eldi sem loga núna eru 175 hamslausir, slökkviliðið ræður ekkert við þá,“ segir Kristinn frá. Þegar ballið byrjaði í maí var ástandið verst nokkru norðar, í Yukon og Norðvesturhéruðunum, sem heita Northwestern Territories í munni innfæddra.
„Við vorum uppi í bústað í allt sumar og sluppum að mestu við reykinn þar til í byrjun ágúst, þá fór hann að berast þangað og öskufall með honum. Við gáfumst upp á að vera þarna og fórum heim til Abbotsford sem er um 350 kílómetra frá bústaðnum,“ segir Kristinn.
Áður en þau yfirgáfu bústaðinn var ástandið þó orðið þannig að koluðum trjáberki rigndi yfir þau í stórum flygsum, sumum allt að þremur sentimetrum í þvermál, og þau þurftu að hafa öll ljós kveikt til að sjá handa skil þar sem dimmt var sem að nóttu í reykjarmekkinum. „Sólin var bara eins og rauður hringur sem glitti í gegnum mökkinn,“ segir Vestmannaeyingurinn frá.
Þá var orðið tímabært að hafa sig á brott frá Scotch Creek enda fólki skipað að rýma svæðið og slökkviliðsflugvélar, „water bombers“ að gælunafni, í sífelldum ferðum frá Shuswap-vatninu að eldhafinu. Þær ferðir urðu sífellt styttri eftir því sem eldurinn nálgaðist og að lokum var ekki hægt að nota venjulegar flugvélar lengur vegna reykjarmakkarins og skipt yfir í þyrlur.
„Það þýddi ekkert að vera að hugsa um bústaðinn lengur, maður varð bara að hugsa um líf og limi svo við pökkuðum saman,“ segir Kristinn og bætir því við að örtröðin á bensínstöðinni í Scotch Creek hafi verið slík að röð bíla hafi verið þar við allar átta dælurnar þegar fólk flykktist þangað til að fylla á tankinn og forða sér hið bráðasta.
Svo kom babb í bátinn þegar eina brúin yfir Scotch Creek, ána sem svæðið dregur nafn sitt af, lokaðist í eldhafi. „Eldurinn var kominn þangað á nokkrum klukkutímum þannig að fólkið lokaðist inni. Slökkviliðið náði að bjarga brúnni, sem er úr tjörubornum viði, með því að setja upp úðarakerfi á henni en allt svæðið umhverfis brúna brann,“ lýsir Kristinn – en þau Laura voru komin yfir þegar þetta gerðist.
„Flytja þurfti fólk með bátum frá Scotch Creek og Celista og fleiri stöðum þarna yfir í það sem heitir Salmon Arm, það var eina leiðin,“ segir Kristinn af rýmingu sumarbústaðasvæðisins vinsæla. Ekki hafi þó allir verið tilbúnir að fara.
„Í götunni sem okkar bústaður er við er til dæmis bóndabær og sá náungi er með nautgripi. Ég býst við að hann hafi ekki yfirgefið svæðið, svo mikið er í húfi fyrir hann. Svæðið fyrir austan okkur varð mjög illa úti, þar brann fjöldi sumarbústaða og varð gríðarlegt tjón,“ segir Kristinn.
Abbotsford, hið eiginlega heimili Kristins og Lauru, er í Fraser-dalnum sem svo heitir en Vancouver er við dalmynnið. Segir Kristinn að nú sé svo komið að þrír skógareldar geisi í dalnum og þau hjónin séu á ný umlukin reykjarslæðu dægrin löng, þó ekki þéttri. Fjórar uppkomnar dætur þeirra, 36 til 40 ára gamlar, þær Berglind Ásta, Sigurlína Kristín, Karítas Beverly og Deanna Sólveig, búa allar á næstu grösum.
En hvernig verður íbúum Bresku-Kólumbíu við eldana? Hvernig er líðan fólks á svæðinu sem nú horfir upp á mestu skógarelda í sögu Kanada en er þó orðið vel kunnugt slíkum eldum eftir síðustu tuttugu ár?
„Fólk er miður sín, margir hverjir hafa tapað aleigunni og aðeins getað kippt með sér því allra nauðsynlegasta, tölvum, myndaalbúmum og einhverju smotteríi, að tapa öllu breytir lífi fólks,“ segir Kristinn alvörugefinn og rifjar upp skelfingaratburð frá sumrinu sem leið.
„Þá brann heill bær í Fraser-gilinu á mjög skömmum tíma í hitabylgju sem náði mest 48 gráðum í þrjá daga samfleytt. Sex hundruð manns dóu úr hita í húsum sínum en dauðsföll vegna sjálfra skógareldanna voru ekki nema þrjú til samanburðar. Fólk veit hvað náttúran getur gert. Við Íslendingar höfum eldgos, við vitum líka hvernig gos hegða sér. Ég var í Vestmannaeyjum fyrir fimmtíu árum,“ rifjar Kristinn upp af hamförum sem eldri kynslóðir Íslendinga muna glöggt.
„Þarna gat maður labbað að eldstöðvunum, þar var gasið það hættulega. Hér er hættan hvað eldurinn breiðist hratt út. Þegar við komum hingað á miðvikudaginn var spáð roki með lægð sem var væntanleg frá norðurhluta Bresku-Kólumbíu. Þegar rokið skall á var vindhraðinn um 60 kílómetrar á klukkustund og eldurinn geystist áfram 20 kílómetra á innan við tólf tímum,“ segir Kristinn og kveður hávaðann við slíkar hamfarir ærandi.
„Kona hérna hélt að flugvél í lágflugi væri að fara yfir húsið en þá var þetta eldurinn sem braust áfram í rokinu. Lætin eru það mikil að það hljómar eins og flugvél eða stór vörubíll rétt við hliðina á þér. Hér þekkir fólk þetta og hvað eldurinn getur farið hratt þegar blæs,“ segir Kristinn.
Hann segir skógareldatímann helst vera hásumarmánuðina júní, júlí og ágúst þótt úr því tímabili geti tognað í báða enda. Haustrigningar hefjist yfirleitt seint í október og nóvember sé mjög vætusamur. „Yfirleitt byrjar þetta svo aftur í júní,“ segir Kristinn sem er nokkuð ánægður með framgöngu stjórnvalda og samskipti þeirra við það sem bókstaflega mætti kalla logandi hrædda þjóð.
„Nú er þetta allt komið í „app“ í símanum og fólk fær tilkynningar um neyðarástand og hvers konar neyðarástand þar er á ferð, svo lengi sem það er með símann á sér,“ segir Kristinn og lætur vel af samskiptunum. „Núna er auðvitað erfitt að gefa upplýsingar um hvernig eldurinn hefur leikið mismunandi staði, reykurinn er svo þéttur að sums staðar sést ekki neitt.“
Við rýmingu stærri búsetusvæða, svo sem bæja og borga – en greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að borgin Yellowknife, höfuðborg Norðvesturhéraðanna, hefði verið tæmd algjörlega – segir Kristinn að venjulegum akbrautum með umferð í báðar áttir sé breytt í einstefnu, aðeins umferð frá viðkomandi þéttbýli fari þá um allar akreinar, enginn fái að snúa til baka og slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar hafi aðra vegi til umráða í átt að svæðinu.
„Ég er Vestmannaeyingur og var kennari þar í tíu ár. Þar hitti ég líka þessa fallegu konu einu sinni og við giftumst 1981,“ segir Kristinn af uppruna sínum í Eyjum og kynnum af hinni kanadísku Lauru. „Þegar krakkarnir voru orðnir þrír þurftum við að ákveða hvort við ætluðum að fara til Kanada eða vera áfram í Eyjum og ákvörðunin var að fara til Kanada,“ heldur hann áfram.
Þau Laura fluttu því út með dæturnar þrjár og þá fjórðu á leiðinni árið 1987 og gerðu sér heimili í Langley í Bresku-Kólumbíu til að byrja með en fluttu sig árið 1989 yfir til Abbotsford þar sem þau hafa búið í síðan í Fraser-dalnum – í blómguðu dalanna skauti eins og Jónas kvað.
„Ég fékk mér kennararéttindi hér og fór hér á eftirlaun hér úr því starfi eftir 40 ár við kennslu, þar af 30 í Kanada,“ segir Kristinn og kveðst hafa verið ákaflega heppinn með skóla, hann hafi hreinlega verið blessaður með því hlutskipti er beið hans. Þar á hann við Langley Fine Arts School, ríkisskóla þar sem hann kenndi efnafræði, líffræði, stærðfræði og önnur raunvísindi en skólinn er framhaldsskóli með áherslu á listgreinar.
Kristinn er líffræðingur frá Háskóla Íslands og lagði sem fyrr segir stund á kennsluréttindanám eftir að hann kom út. „Hér er mikil áhersla lögð á skipulagningu þess hverju kennari miðlar til nemenda sinna af námsefninu, ekki bara sagt „hér er kennslubók, kenndu hana“, segir Kristinn og hlær.
Í Eyjum kenndi hann fyrst í grunnskóla og svo framhaldsskólanum þar og sinnti svo öðrum störfum á sumrin þegar kennsla lá niðri. „Kennaralaunin voru nú ekki mjög góð svo maður vann öll sumur, ég var þá í lögreglunni sem afleysingamaður fimm sumur, en áður en ég varð kennari vann ég hjá bænum. Þá var ég í Menntaskólanum í Hamrahlíð á veturna og svo háskólanum og maður þurfti að vinna eins og hægt var á sumrin til að standa undir sér í Reykjavík,“ rifjar hann upp af löngu horfnum námsárum.
Eftir Vestmannaeyjagosið fyrir réttum 50 árum starfaði hann við uppgræðsluna í Vestmannaeyjum. „Eyjan var illa leikin eftir gosið og hreinsunin gekk mjög vel. Það var svo 1974 sem Gísli bróðir minn lagði fyrir Viðlagasjóð tillögu um hvernig best væri að græða Heimaey upp og tillögu hans var vel tekið,“ segir Kristinn en bróðirinn er Gísli Jóhannes Óskarsson jarðfræðingur og annar bróðir Kristins, af sex systkinum, er Snorri Óskarsson, gjarnan kenndur við hvítasunnusöfnuðinn Betel.
Svo fór að viðlagasjóður samþykkti tillögu Gísla og starfaði Kristinn við uppgræðslu bróður síns tvö sumur og var þá við nám í MH. „Guðmundur, stærðfræðikennarinn minn, hafði nú áhyggjur af mér af því að ég var svo mikið í burtu gosveturinn en þetta fór nú allt vel með uppgræðsluna,“ segir hann og hlær enn.
Þau Laura una hag sínum vel í Kanada með dæturnar fjórar skammt undan og barnabörnin orðin sjö talsins. „Þær voru allar Kristinsdætur þegar við fluttum frá Íslandi og innflytjendaeftirlitið spurði hvort við ætluðum að breyta eftirnöfnum þeirra. Ég er náttúrulega Óskarsson og Laura er Withers og dæturnar voru Kristinsdætur. Að lokum hvatti starfsfólk eftirlitsins okkur til að láta nöfn þeirra bara standa, þau vildu að innflytjendur fengju að halda í sínar hefðir,“ segir Kristinn frá. „Þannig að þær héldu allar eftirnafninu þangað til þær giftust og tóku nöfn manna sinna, nema ein, hún er enn þá Kristinsdóttir,“ lýkur faðirinn þeirri sögu.
Oftast nær kalla hinir innfæddu hann Chris, þó ekki vegna þess að þeir ráði ekki við framburðinn. „Sko, Kristin er kvenmannsnafn hér,“ segir Eyjamaðurinn sposkur, „þannig að þegar við erum á ferð og bókum hótel undir nöfnunum Kristinn og Laura heldur fólk að við séum tvær konur þangað til við mætum,“ segir Kristinn Magnús Óskarsson Vestmannaeyingur og Kanadabúi að lokum, nýslopinn undan vítislogum í sumarbústaðalandi þeirra hjóna í Scotch Creek í Bresku-Kólumbíu.