Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er hugmyndavinna við gerð stjórnunar-og verndaráætlun íslenska lundastofnsins á algjöru frumstigi og á enn eftir að skipa formlegan starfshóp sem fari fyrir verkefninu. Nýlega gaf stofnunin út samantekt yfir fyrstu skref verkefnisins sem sætt hefur gagnrýni veiðimanna.
Í samtali við Morgunblaðið í gær gagnrýndi lundaveiðimaðurinn Viggó Jónsson samantekt vinnuhóps Umhverfisstofnunar um fyrstu skref við gerð stjórnunar-og verndaráætlunar íslenska lundastofnsins.
Þá sagðist Viggó telja rangt með farið að lundastofninum færi hrakandi, en auk þess kvaðst hann undrandi á því að ekki hafi verið haft samráð við lundaveiðimenn við gerð samantektarinnar.
Freyja Pétursdóttir, sérfræðingur í teymi lífríkis-og veiðistjórnar Umhverfisstofnunar, segir þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun búi yfir ekki renna stoðum undir fullyrðingar Viggós.
Hún segir stofnunina fylgja lögum um veiðar á villtum fuglum þegar komi að því að meta þróun lundastofnsins á Íslandi og að samkvæmt þeim upplýsingum sem liggi fyrir hafi stofninum hrakað umtalsvert undanfarna áratugi. „Við fáum okkar upplýsingar frá sérfræðingum sem hafa unnið að vöktun lunda árum saman og gögnin sýna að stofninum hefur hrakað mikið á síðastliðnum áratugum,“ segir Freyja.
„Þetta sést mismikið á milli landshluta, en heilt yfir er niðurstaðan sú að lundanum fer fækkandi. Við fáum upplýsingar frá náttúrustofunum og Náttúrufræðistofnun Íslands og lög um veiðar á villtum fuglum kveða á um að okkur sé skylt að horfa til þessara niðurstaðna. Við fáum upplýsingarnar þaðan og treystum þeim.“
Þá leggur Freyja áherslu á það að samantektin hafi einungis verið hugmyndavinna á frumstigi og að til standi að skipa stærri hóp þar sem ólíkir hagsmunaaðilar fái að koma að borðinu.
„Samstarfshópurinn sem á að vinna þessa vinnu saman hefur ekki verið formlega skipaður og vinnan er á algjöru byrjunarstigi. Þetta kom kannski ekki nógu skýrt fram í þessari samantekt úr vinnustofunni, en í þar komu saman lögbundnir aðilar sem okkur ber skylda samkvæmt lögum að hafa samráð við þegar kemur að málefnum villtra dýra og fugla,“ segir Freyja.
„Eitt helsta verkefni vinnustofunnar var einmitt að greina hvaða fleiri hagsmunaaðilar ættu að koma inn í vinnuna og að það ætti að innvinkla þá. Við viljum hafa lundaveiðifélög og háfaveiðimenn með okkur. Við viljum hafa gott samráð við hagsmunaaðila og ætlum okkur að standa við það,“ segir Freyja og bætir við að nú þegar hafi Umhverfisstofnun sett sig í samband við veiðifélög.
Hún segir Umhverfisstofnun leggja áherslu á að taka mið af ólíkum sjónarmiðum og því menningarlega gildi sem fylgi lundanum.
„Meðal þess sem við töluðum um í vinnustofunni var að standa vörð um það menningarlega gildi sem lundinn hefur og það á líka við um þessar hefðbundnu veiðar sem hafa staðið svo kynslóðum skiptir. Við erum því ekki bara að horfa á sjónarmið þeirra sem vilja stoppa allar þessar veiðar, heldur snýst vinnan um að komast að að málamiðlun og taka tillit til mismunandi hópa samfélagsins,“ segir Freyja.