„Endaði eins vel og mögulegt var“

Anahita Babaei í fylgd lögreglu á leið inn í lögreglubíl.
Anahita Babaei í fylgd lögreglu á leið inn í lögreglubíl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðgerðum lögreglu við hvalveiðiskipin í Reykjavíkurhöfn er lokið en mótmælendurnir Anahita Babaei og Elissa Biou komu niður úr möstrum hval­veiðiskip­anna Hvals 8 og 9 á þriðja tímanum í dag.

„Félagi minn fór upp og ræddi við þær og þær féllust á að koma niður. Það gekk vel að koma þeim niður og það urðu sem betur engin slys, hvorki hjá þeim, lögreglumönnum né öðrum sem voru á staðnum,“ sagði Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögreglustjóri í samtali við mbl.is.

Voru ánægðar með að koma niður

Spurður hvernig þær Anahita og Elissa hafi brugðist við eftir að hafa samþykkt að láta af aðgerðum sínum og koma niður segir Kristján:

„Þær voru bara ánægðar með að koma niður. Vitaskuld voru þær pínulítið ringlaðar eftir að hafa verið í þetta langan tíma í möstrunum en þær voru sáttar eftir að hafa fallist á boð okkar um að koma niður.

Við buðum þeim vatn og gos um leið og þær komu niður en reyndar hafði önnur þeirra fengið Coca-Cola þegar hún var uppi. Það má því segja að þetta hafi endað eins vel og mögulegt var. Það er alltaf hætta á slysum við þessar aðstæður en sem betur sluppu allir heilir.“

Í skýrslutöku og verða svo látnar lausar

Kristján segir að til einhverra stympinga hafi komið við fáeina mótmælendur sem voru á bryggjunni áður en þær Anahita og Elissa komu niður. „Það var enginn aðsúgur gerður að okkur og það var bara klappað fyrir þeim þegar þær skiluðu sér til baka.“

Kristján segir að konurnar hafi verið fluttar á lögreglustöðina eftir að hafa verið skoðaðar af sjúkraflutningamönnum í sjúkrabíl sem kom á staðinn.

„Þær reyndust í ágætu standi. Í framhaldinu er svo skýrslutaka af þeim og þær verða svo látnar lausar. Þannig verður ferlið nema eitthvað óvænt komi upp á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert