Segir stefnu stjórnvalda ekki framfylgt

Vilhjálmur Árnason segir að þeir sem eru á móti einkabílnum …
Vilhjálmur Árnason segir að þeir sem eru á móti einkabílnum hjá Reykjavíkurborg vilji ekki laga ljósastýringuna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Eitt af skilyrðum samgöngusáttmálans var snjallvæðing umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu til að bæta flæði umferðar, en því verkefni hefur ekki verið sinnt. Aðilar sáttmálans framfylgja ekki stefnumörkun stjórnvalda.“ Þetta segir Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.

Þeir sem eiga leið um höfuðborgarsvæðið hafa ekki farið varhluta af miklum umferðartöfum á stofnbrautum borgarinnar og nágrennis og silast umferðin áfram á álagstímum kvölds og morgna, mörgum til skapraunar.

Vilhjálmur segir að þeir sem eru á móti einkabílnum hjá Reykjavíkurborg vilji ekki laga ljósastýringuna. „Þeir sem tala fyrir borgarlínunni styðja það að tregðast sé við að ljósastýringin sé bætt, eins og við sjálfstæðismenn fengum framgengt að yrði gert,“ segir Vilhjálmur.

Hann bendir einnig á að tækjabúnaður sé fyrir hendi en tæknin sé ekki nýtt. „Tækin eru í lagi en hugbúnaðurinn ekki,“ segir hann.

Samgöngumál í borgarstjórn

Samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu verða í brennidepli á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, en umræðan er að kröfu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Segir Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, að þeir hafi frá upphafi sett mikla fyrirvara við fjármögnun samgöngusáttmálans, bæði hvað hann muni kosta og einnig hvenær vænta megi rekstraráætlunar fyrir borgarlínu.

„Það eru allt of margir útistandandi óvissuþættir sem þarf að leysa ef vel á að ganga,“ segir hún og vekur jafnframt athygli á að óvissa ríki um kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga hvað varðar rekstur borgarlínu.

„Eins og rekstri borgarinnar er háttað er ljóst að hún er ekki í stakk búin til að taka á sig stóran hluta af rekstri svona kerfis,“ segir Hildur.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Eðlilegt að staldra við

Einar Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknar telur eðlilegt að staldra við í langtímaverkefni sem þessu. Sérstaklega í ljósi þess að samgönguvísitala hefur hækkað um 30% frá því sáttmálinn var undirritaður.

Hann telur þó ekki að þeir sem tala fyrir endurskoðun vilji slá sáttmálann út af borðinu, enda sé línan eitt stórt spil í heildarmyndinni og til þess fallin að leysa umferðarvanda á vaxandi svæðum eins og höfuðborgarsvæðinu.

Meira í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknar.
Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknar. mbl.is/Hákon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert