Hagræðingar ríkisins megi ekki bitna á stúdentum

Landsamband íslenskra stúdenta segir að hagræðingar í ríkisrekstri eigi ekki …
Landsamband íslenskra stúdenta segir að hagræðingar í ríkisrekstri eigi ekki að bitna á menntun. Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Bifröst. Samsett mynd

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) brýna fyrir stjórnvöldum að taka þurfi mark á stúdentum við hugsanlegar sameiningar háskólanna. Nú liggur mögulega fyrir að sameina Há­skól­ann á Hól­um við Háskóla Íslands annars vegar og Háskólann á Akureyri við Háskólann á Bifröst hins vegar.

Rektor Há­skóla Íslands, rektor Há­skól­ans á Hól­um og Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir Há­skóla-, iðnaðar-, og ný­sköp­un­ar­ráðherra skrifuðu und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu um aukið sam­starf eða mögu­lega sam­ein­ingu skól­anna tveggja.

Einnig hefur verið greint frá því í Morgunblaðinu að Há­skól­inn á Hól­um og Há­skól­inn á Bif­röst hafi átt í óform­leg­um viðræðum um náið sam­starf. Rektorar HA og Háskólans á Bifröst hafa einnig átt í óformlegum viðræðum um sameiningu.

Hagur nemenda ekki hafður að leiðarljósi

Af tilefni hugsanlegra sameininga er sendi LÍS frá sér tilkynningu þar sem segir að samtökin segja að í allri umræðu um samstarf og sameiningu háskóla þurfi að tryggja fullt samráð við stúdenta. „Enn fremur þarf að tryggja að allt samstarf sé gert með hag nemenda að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.

LÍS telja að markmið með mögulegri sameiningu þurfi að vera skýr og að stjórnvöld þurfi að sýna fram á með óyggjandi hætti að markmið sameiningar sé að auka gæði náms, tryggja aðgengi stúdenta að stoðþjónustu og bæta aðgengi að námi.

Sameining ekki fýsileg lausn á heimatilbúnum vanda

„Það er ekki launungarmál að hver hinna 7 háskóla á Íslandi hefur verið fjársveltur um langt skeið,“ segir í tilkynningunni auk þess sem að Ísland sé eftirbátur samanburðarþjóða sinna þegar kemur að fjárfestingu í háskólamenntun.

LÍS segir að langvarandi fjársvelti háskólanna sé afleiðing af stefnu stjórnvalda í menntamálum og vísa samtökin því á bug að sameining háskóla sé fýsileg lausn á „hinum heimatilbúna vanda sem fjársveltið er“.

„Hagræðing í ríkisrekstri má ekki vera forsenda fyrir jafn afdrifaríkum aðgerðum og þessar yrðu, taka þarf á menntamálum af meiri festu en svo.“

Engin greining gerð fyrir ákvörðun

Að lokum kemur fram að það skjóti skökku við að ekki hafi verið gerð greining á þeim kostum og göllum sem hljótast af því að hafa sjö starfandi háskóla á landinu. Slík greining hefði þá átt að fara fram áður en hvatt var til sameiningar.

„Hver hinna sjö háskóla á Íslandi hefur sína sérstöðu og ekki má vanmeta þá kosti sem það leiðir af sér. Þar má helst nefna fjölbreytni í námi og hvernig dregið hefur verið úr einsleitni í háskólakerfinu með stofnun nýrra háskóla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert