Margrét Jónsdóttir Njarðvík þurfti að taka á honum stóra sínum þegar hún tók við rektorsstöðinni við Háskólann á Bifröst og leggja nótt við dag. „Ég var ráðin til að breyta hlutunum og fyrsta árið vann ég allan sólarhringinn og var ekki með borðann Vinsælasta stúlkan eftir veturinn,“ segir Margrét í viðtali í sunnudagsblaðinu.
Margrét tók þar við rektorsstöðu í ágúst 2020 og hefur snúið rekstrinum við.
„Ég hélt, þegar ég hætti í HR, að ég væri búin að ljúka öllum mínum störfum hjá háskólum. En ég var beðin að sækja um rektorsembætti við Háskólann á Bifröst og af því að ég er úr Borgarfirðinum, þá sló ég til. Ég hafði oft horft á þennan skóla og hugsað hvort ekki væri hægt að gera betur,“ segir Margrét.
„Þegar ég tók við var skólinn í fjarnámi með staðlotum og það hafði ekki verið jákvætt eigið fé frá 2012 en hefur verið það nú þrjú ár í röð. Fólkið mitt hefur rifið staðinn upp og í dag er skólinn eingöngu í fjarnámi. Við erum bara „í skýjunum“,“ segir hún og brosir.
„Það er rosalega gaman að vinna og ná árangri. Ég var ráðin til að breyta hlutunum og fyrsta árið vann ég allan sólarhringinn og ég var ekki með borðann Vinsælasta stúlkan eftir veturinn. Ég rak marga og það var svakaleg tiltekt. Svo hófst uppbyggingin og síðan hefur margt gott gerst. Gæðamálin hafa tekið stakkaskiptum. Mér finnst gott að setja kapp í hlutina,“ segir Margrét sem hefur nú unnið í þau þrjú ár af fimm sem ráðningin er.
Margrét segir frá því í viðtalinu að nú séu hafnar viðræður við Háskólann á Akureyri um sameiningu og verði af því verði skólinn næststærsti háskóli landsins. Hún segir að sameining háskóla myndi verða öllum til góðs, enda séu of margir háskólar á Íslandi, en bætir við hlæjandi: „Ég er kannski að gera mig atvinnulausa.“