Þriðji stærsti ágústmánuður frá upphafi mælinga

Frá áramótum hafa um 1,5 milljónir erlendra farþega farið frá …
Frá áramótum hafa um 1,5 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll. mbl.is/Unnur Karen

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 282 þúsund í nýliðnum ágúst samkvæmt mælingum Ferðamálastofu. Um er að ræða þriðja stærsta ágústmánuð frá því mælingar hófust.

Frá áramótum hafa um 1,5 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 36,2% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra 2022.  Fjöldinn það sem af er ári er um 94,5% af brottförum  á sama tímabilik, janúar-ágúst, metárið 2018.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Færri brottfarir hjá Íslendingum

Brottfarir Íslendinga voru um 45.300 í ágúst eða 8,5% færri en þær mældust í sama mánuði í fyrra 2022.

Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 409 þúsund eða 91,9%  af því sem þær mældust á sama tímabili árið 2018 þegar mest var.

Bandarískir ferðamenn vega þyngst

Í tilkynningunni er brotið niður þjóðerni ferðamannanna og kemur í ljós að flestar brottfarir í ágúst, um 85 þúsund talsins, hafi verið tilkomnar vegna Bandaríkjamanna sem voru 30,3% af heildinni. 

Þar á eftir voru brottfarir Þjóðverja en þeir voru tæplega 21 þúsund talsins, 7,4% af heildinni. Brottfarir Ítala voru í þriðja sæti eða 6,5% af heildinni og Frakkar í því fjórða, 5,9% af heildini.

Þjóðernin sem fylgja þeim á eftir eru Pólverjar (5,6%), Spánverjar (5,5%), Bretar (4,9%), Kanadamenn (3,9%), Danir  (2,5%) og Hollendingar (1,9%).

Samtals voru 10 stærstu þjóðernin í ágúst voru 74,4% af heild.

Í tilkynningunni kemur fram að Bandaríkjamenn hafa verið stærsta þjóðernið í ágústmánuði frá árinu 2013, að undanskildu 2020 þegar Covid-faraldurinn reið yfir.

mbl.is