Ríflega 15 milljarðar í málefni útlendinga

Fjölgunina má m.a. rekja til stóraukins fjölda flóttafólks frá Úkraínu …
Fjölgunina má m.a. rekja til stóraukins fjölda flóttafólks frá Úkraínu eftir að stríðsátök hófust þar í landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert er ráð fyrir að heildarframlög þvert á málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks verði ríflega 15 milljarðar kr.

Hækkunin nemur 7 milljörðum á raunvirði á milli ára en m.a. er um að ræða framlög vegna fæðis- og húsnæðiskostnaðar, endurgreiðslur til sveitarfélaga og samninga um samræmda móttöku flóttafólks, að því er segir í frumvarpinu. 

Þar kemur fram, að málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks hafi verið ofarlega á baugi í ljósi fjölgunar í þeim hópi að undanförnu. Fjölgunina megi rekja til stóraukins fjölda flóttafólks frá Úkraínu eftir að stríðsátök hófust þar í landi, auk þess sem fjölgað hefur í hópi fólks frá Venesúela sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi.

Fjórir milljarðar til að mæta auknum fæðis- og húsnæðiskostnaði

 „Í frumvarpi til fjárlaga 2024 er gert ráð fyrir að heildarframlag þvert á málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks verði um 15,3 ma.kr. Um er að ræða 7 ma.kr. hækkun á raunvirði á milli ára. Þar vegur þyngst 4 ma.kr. hækkun til að mæta auknum fæðis- og húsnæðiskostnaði vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd, auk þess sem framlag vegna endurgreiðslna til sveitarfélaga, sem byggja á 15. grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, aukast um 1,9 ma.kr. vegna veittrar aðstoðar til erlendra ríkisborgara sem eiga ekki lögheimili í landinu eða hafa átt skemur en í tvö ár. Þá eru framlög vegna samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttafólks aukin um 0,6 ma.kr. á milli ára,“ segir í frumvarpinu. 

Þá segir, að einnig sé gert ráð fyrir 600 milljóna kr. tímabundnu framlagi verði varið í húsnæðisúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Af öðrum breytingum megi nefna að framlög til Vinnumálastofnunar hækka um 300 milljónir vegna aukinnar aðstoðar við flóttafólk við atvinnuleit, veitt er 400 milljóna kr. framlag til móttökumiðstöðvar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og framlög til íslenskukennslu haldi áfram. 

mbl.is