Fundu fyrir höfuðverk og óþægindum í hálsi

Fannborg 6 í Kópavogi.
Fannborg 6 í Kópavogi. Skjáskot/ja.is

Kópavogsbær hefur tekið til leigu húsnæði að Vallakór 4 fyrir starfsstöðvar velferðarsviðs bæjarins. Þá hefur afgreiðslan verið flutt að Digranesvegi 1 og viðtalsherbergi þar nýtt fyrir hluta viðtala á vegum sviðsins.

Húsnæðið við Vallakór 4 rúmar þó ekki allt starfsfólkið, og hentar þess að auki ekki til að taka viðtöl, og vinnur því hluti starfsfólks að heiman, eða skiptist á að vinna að heiman og í Vallakór.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Kópavogsbæjar við fyrirspurn mbl.is en eins og greint var frá undir lok síðasta mánaðar greindust há gildi myglugróar í húsnæði velferðarsviðs. Lítil loftgæði voru í húsinu sem hafði áhrif á starfsfólk.

Leita áfram að viðbótar húsnæði

60 manns starfa á velferðarsviðinu en í svari Kópavogsbæjar segir að hluti starfsfólks hafi fundið fyrir einkennum á borð við höfuðverk og óþæginda í hálsi. 

Staðan á húsnæðinu versnaði í sumar en þegar niðurstöður úr sýnatöku bárust 24. ágúst síðastliðinn var ákveðið að loka húsnæðinu.

„Starfsfólk er hvatt til að nota TEAMS til viðtala þar sem það er hægt, þar sem við á er unnið með heimavitjanir í samtölum við fólk, notast er við leik- og grunnskóla bæjarins í samtölum við börn og foreldra,“ segir í svarinu. Þá kemur fram að áfram verði leitað lausna til að bæta við húsnæði fyrir starfsfólk og starfsemi sviðsins.

mbl.is