Vígahnöttur beint fyrir ofan Ísland

Á þessari mynd má sjá reykslóð eftir vígahnöttinn sem þrátt …
Á þessari mynd má sjá reykslóð eftir vígahnöttinn sem þrátt fyrir vígalegt nafn hefur líklega verið á stærð við jarðarber. Ekki spilltu norðurljósin fyrir upplifun Sævars Helga og ljósmyndarahóps sem hann er staddur með á Raufarhöfn. Ljósmynd/Aðsend

„Vígahnöttur er loftsteinn sem er að brenna upp í andrúmsloftinu okkar, aðeins stærri en þessi dæmigerðu stjörnuhröp sem við þekkjum, vígahnettir verða ámóta skærir og Venus þegar Venus er skærust,“ segir Sævar Helgi Bragason, eitt helsta átorítet Íslands í stjarnvísindum, í samtali við mbl.is.

Sævar er staddur með hóp ljósmyndara á Raufarhöfn og ólíkt öllum jarðskjálftafræðingunum sem aldrei á ævi sinni upplifa jarðskjálfta er Sævar glettilega naskur við að koma auga á ýmis fyrirbæri innan hans fræðasviðs og kveður hann glampa vígahnattarins hafa vakið mikla lukku í hópnum.

Ágætar myndir náðust af vígahnettinum í kvöld en Sævar Helgi …
Ágætar myndir náðust af vígahnettinum í kvöld en Sævar Helgi iðar þó í skinninu að sjá fleiri myndir á morgun sem ljósmyndarar víða um land hafa lofað honum. Ljósmynd/Aðsend

Ekki séð svona skæran vígahnött lengi

„Hann lýsti hér upp allt saman þar sem við vorum stödd við Heimskautsgerðið í Raufarhöfn og svo hef ég fengið tilkynningar frá Reykjavík og víðar að frá fólki sem sá hnöttinn,“ segir Sævar Helgi.

Og hvað var þá að gerast?

„Það sem var að gerast var að lítill steinn, sem er búinn að ferðast um himingeiminn í líklega 4.500 milljónir ára, varð fyrir því að jörðin varð á vegi hans,“ útskýrir Sævar Helgi af smitandi áhuga þess sem fundið hefur sína ástríðu í lífinu. „Líkurnar á því eru ekki miklar en það gerist samt. Ég hef ekki séð svona skæran vígahnött í þó nokkuð langan tíma, kannski fimmtán ár,“ heldur Sævar Helgi áfram og hljómar eins og hann verði vitni að undrum og stórmerkjum himingeimsins daglega. Hann ræddi þessa ástríðu sína við Morgunblaðið fyrir sléttu ári.

„Við náðum svona þokkalegum myndum hérna en ég veit að fleiri náðu góðum myndum og ég hlakka mikið til að rýna í þær á morgun. Svo eru norðurljósin núna skær og falleg, sólin var að senda frá sér kórónugos sem lýsir upp himininn hjá okkur núna. Þannig að þetta er búið að vera geggjað kvöld, allur hópurinn minn var akkúrat að horfa í norðurátt þegar vígahnötturinn kom, svona er að vera úti á réttum tíma, þá sér maður stundum svona fyrirbæri,“ segir Sævar Helgi.

Hefðbundin stjörnuhröp bara sandkorn

Hann segir vígahnöttinn í kvöld hafa verið á stærð við hindber eða jarðarber sem blaðamanni þykir hálfdapurleg stærð fyrir eitthvað sem kallað er vígahnöttur. „Þessi hefðbundnu stjörnuhröp sem fólk sér eru bara sandkorn, þessi steinn var stærri en það en þó frekar lítill. Það sem gerist þegar hann stingur sér inn í andrúmsloftið er að hann ryður loftinu á undan sér, eins og maður sem stingur sér til sunds ryður vatni frá sér. Þá byrjar loftið að glóa fyrir framan hann og það er það sem við sjáum sem ljós,“ útskýrir Sævar Helgi.

Ótrúlegt er að ímynda sér að vígahnöttur sé aðeins á …
Ótrúlegt er að ímynda sér að vígahnöttur sé aðeins á stærð við jarðarber en Sævar Helgi veit sínu viti. Ljósmynd/Aðsend

Hann telur þó ekki líklegt að vígahnötturinn hafi sést víðar í Evrópu, hér er kominn rammíslenskur vígahnöttur sem enginn sá nema Íslendingar. „Hann byrjar sennilega hérna rétt fyrir norðan landið og endar einhvers staðar nálægt hálendinu. Hann hefur brunnið upp ofarlega, í 70 til 80 kílómetra hæð, við heyrðum til dæmis ekkert hljóð frá honum svo hann hefur ekki komist neðarlega,“ segir Sævar Helgi Bragason, sérfræðingur í þeim undrageimi er jörðina umlykur, staddur á Raufarhöfn þar sem vígahnöttur vakti athygli og lukku í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka