„Var hrikalegt að sjá þetta“

Frá slysstað í gær þar sem ökumaður á fertugsaldri lést.
Frá slysstað í gær þar sem ökumaður á fertugsaldri lést. mbl.is/Eyþór Árnason

Leigubílstjóri í Reykjavík var með þeim fyrstu sem kom að umferðarslysinu á mótum Lækjargötu og Vonarstrætis eftir hádegi í gær, en karlmaður á fertugsaldri lést eftir árekstur lyftara og sendibíls.

„Ég kom að þessu þegar fyrsti lögreglubílinn var mættur á staðinn. Ég ók þétt framhjá slysstaðnum. Ég sá að lyftarinn var með gaflana hátt uppi í svona 70 sentimetra til eins metra hæð og þannig á ekki að aka lyftara,“ segir leigubílstjórinn sem að kom að slysinu í samtali við mbl.is.

„Annar gaffallinn hefur greinilega byrjað að fara í gegnum miðja framhurðina á sendibílnum en hinn var fyrir aftan og var í stefnu þar sem ökumaðurinn sat. Það var alveg hrikalegt að sjá þetta og ég taldi mjög líklegt að ökumaðurinn myndi ekki hafa lifað þetta af.“

Eins og fram kom í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í morgun eru tildrög slyssins til rannsóknar hjá lögreglu og hjá rannsóknarefnd samgönguslysa.

mbl.is