Vilja fækka í kærunefnd útlendingamála

mbl.is/Hari

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokks leggja til breytingar á útlendingalögum og kærunefnd útlendingamála. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra skipi þrjá nefndarmenn í stað sjö og að fenginni tillögu Hæstaréttar.

Þá er lagt til að allir nefndarmenn uppfylli skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Flutningsmenn eru þau Birgir Þórarinsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason.

Ekki gætt nægilega vel að hlutleysi

Í gildandi útlendingalögum er gert ráð fyrir að ráðherra skipi formann og varaformann kærunefndar sem og fimm aðra nefndarmenn sem tilnefndir skulu ýmist af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands eða án tilnefningar.

Samkvæmt gildandi lögum eiga formaður og varaformaður einir að uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og skulu þeir skipaðir að fenginni umsögn hæfnisnefndar.

Flutningsmenn telja að ekki sé gætt nægilega vel að hlutleysi nefndarmanna með núverandi fyrirkomulagi. Segja þeir að meðal þeirra 15 samtaka sem eiga aðild að Mannréttindaskrifstofu Íslands séu Íslandsdeild Amnesty International, Biskupsstofa, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn á Íslandi, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtökin '78 og Siðmennt.

Segir í athugasemdum með frumvarpinu að kærunefnd útlendingamála eigi að vera sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð og til að nefndin teljist sjálfstæð þurfi nefndarmenn að vera sjálfstæðir, hæfir og óháðir í störfum sínum. Þá þurfi þeir sem skipi í nefndina að gæta sérstaklega vel að hæfi nefndarmanna.

Segja flutningsmenn þessi samtök að stórum hluta þau sömu og hafa haft sig töluvert frammi í málflutningi þess efnis að umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hefur verið synjað um hæli hér á landi, fái engu að síður áfram fulla og óskerta þjónustu hins opinbera, andstætt ákvæðum laga um útlendinga.

mbl.is
Loka