Þurfa ekki að mæta í tíma til Páls

Nemendur Fjölbrautaskólans í Garðabæ þurfa ekki að mæta í tíma …
Nemendur Fjölbrautaskólans í Garðabæ þurfa ekki að mæta í tíma til Páls. Samsett mynd

Nemendur Fjölbrautarskólans í Garðabæ þurfa ekki að mæta í tíma til Páls Vilhjálmssonar, kennara við skólans. Þetta kemur fram í bréfi sem Kristinn Þorsteinsson, skólameistari FG, sendi á nemendur og foreldra í dag vegna nýlegra bloggfærslna Páls. 

Í bréfinu segir Kristinn að hann telji sér þó ekki unnt að hrófla við stöðu Páls við skólann vegna skrifanna.

Þetta er í annað sinn sem Kristinn bregst við bloggfærslum Páls en í umræddri færslu, sem einnig var birt að hluta í Morgunblaðinu í gær, fullyrðir Páll að Samtökin '78 séu í hópi með aðilum sem aðhyllist barnagirnd. Einnig að trans fólk sé haldið ranghugmyndum. 

„Ég viðurkenni fúslega að skólinn er í vandræðum og þessi umræða kennarans um hinseginleikann skaðar skólann. Sá skaði er léttvægur miðað við þá vanlíðan sem skrifin geta valdið hinsegin nemendum innan skólans og almennt í samfélaginu. Sá hópur þarf svo sannanlega á því að halda að njóta verndar og sanngirni,“ segir Kristinn í bréfi sínu. 

Kristinn Þorsteinsson er skólameistari FG.
Kristinn Þorsteinsson er skólameistari FG. Ljósmynd/Aðsend

Réttur tjáningar ríkur

Hann ítrekar að stefna skólans sé að styðja og vernda hinsegin nemendur og virða í hvívetna kynrænt sjálfræði. Innan skólans starfi hinsegin fulltrúi og skólinn sé með stefnu í málefnum hinsegin nemenda. 

„Þrátt fyrir stefnu skólans tel ég ekki unnt að hrófla við stöðu kennarans við skólann. Réttur til tjáningar er ríkur og óttast ég að slagur um þá tjáningu þjóni öðrum hagsmunum en skólans eða hinsegin nemenda. Það er hinsvegar alveg ljóst að nemendur sem telja á sig hallað vegna skrifa kennarans eiga fullan rétt á að þurfa ekki að sitja tíma hjá honum. Hvað áhrif það hefur til langframa á stöðu kennarans verður að koma í ljós,“ segir Kristinn undir lok bréfs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina