„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær skal nýta á sjálfbæran og hagkvæman hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.“
Svo hljóðar fyrri hluti ákvæðis um auðlindir sem lagt er til að bætt verði við VII. kafla stjórnarskrárinnar.
Í ákvæðinu er tekið fram að náttúruauðlindir og landréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti séu þjóðareign. Enginn geti fengið beinan eignarrétt yfir þessum gæðum og að ríkið fari með forræði yfir þeim í umboði þjóðarinnar.
Forsætisráðherra fól sérfræðingum að taka saman greinargerðir um kafla stjórnarskrárinnar er fjalla um Alþingi, dómstóla og mannréttindi. Hefur þeim nú verið skilað til forsætisráðuneytisins og birtar á vef Stjórnarráðsins.
Vinna sérfræðinganna er liður í heildaráætlun um endurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum sem hófst 2018 og í samræmi við áform sem fram koma í stjórnarsáttmála.
Róbert Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, og Valgerður Sólnes, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, unnu greinargerðina um mannréttindakaflann.
Í greinargerðinni eru lagðar til breytingar er varða m.a. auðlindir og umhverfi. Snúa þær m.a. að tiltekinni einföldun á umhverfisverndarákvæðinu og að auðlindir skuli nýttar á sjálfbæran og hagkvæman hátt.
Er þannig mælt fyrir því að við VII. kafla stjórnarskrárinnar bætist nýtt ákvæði um umhverfisvernd svofellt:
„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.
Öllum skal tryggður í lögum réttur til heilnæms umhverfis og náttúru.
Öllum skal tryggður í lögum réttur til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það.“
Þá er mælt fyrir því að við VII. kafla stjórnarskrárinnar bætist við nýtt ákvæði um auðlindir, svofellt:
„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær skal nýta á sjálfbæran og hagkvæman hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.
Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið beinan eignarrétt yfir þessum gæðum. Ríkið fer með forræði yfir þeim í umboði þjóðarinnar.
Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis, hagkvæmni og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“