Alvarlegt mál sem þarf að ræða

Hlédís Sveinsdóttir flytur erindi á morgun.
Hlédís Sveinsdóttir flytur erindi á morgun.

„Læknar eru mennskir og geta gert mistök, en við viljum horfa á mennskuna sem felst í lækningunni, í viðbrögðunum þegar óvænt atvik verða og að þau séu heiðarleg og góð. Þar get ég talað af reynslu,“ segir Hlédís Sveinsdóttir verkefnastjóri en hún, ásamt Jóni Ívari Einarssyni, læknaprófessor við Harvard-háskóla, hefur skipulagt ráðstefnuna „Mennska er máttur – líka í heilbrigðiskerfinu“ sem haldin verður á morgun, sunnudag, í sal Íslenskrar erfðagreiningar á Sturlugötu 8 í Reykjavík kl. 13-16.

„Það þarf að taka á því þegar óvænt atvik koma upp sem hafa alvarlegar afleiðingar og passa að skaðinn verði ekki meiri fyrir alla aðila vegna rangra viðbragða,“ segir Hlédís og segir að erfitt sé að finna tölur um mistök sem gerð hafa verið á íslenskum heilbrigðisstofnunum. „Þessi mál eru svo erfið og sár fyrir alla aðila að umræða um þau hefur ekki verið nógu mikil og við verðum að þora að taka samtalið og vinna saman.“

Úrvinnslan mikilvæg

Hlédís hefur haft brennandi áhuga á öryggismálum sjúklinga eftir að hún fékk innsýn í hvernig ekki var vel staðið að málum þegar mistök voru gerð þegar hún var að fæða barn árið 2011 og þótt áfallið hafi verið mikið voru eftirmálin eiginlega verri. Fyrir mistök fékk hún í hendurnar gögn sem átti að senda landlækni og þá sá hún að þar var atburðalýsing röng. „Viðbrögðin við mistökunum juku á áfallið og þegar við sáum að gögnin voru fölsuð þá vakti það mikla reiði og gerði alla úrvinnslu miklu erfiðari.“ Hún segist hafa upplifað að hafa náð fram einhverju réttlæti þegar hún vann mál gegn ríkinu þegar mistökin voru loks viðurkennd, ekki síst vegna þess að hún hafði bæði myndefni og skýrslu sem sönnuðu mál hennar, sem ekki er alltaf tilfellið. Hins vegar opnaði þessi reynsla augu hennar fyrir því að það væri mikilvægt að styrkja sjúklinga í þessari stöðu og eins styðja heilbrigðisstarfsfólk til þess að fá rými til að viðurkenna mistök og geta unnið úr áfallinu og lært af því.

Nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: